Hraðakstur ávísun á alvarlegri slys

Blóm á vettvangi þar sem ung kona lést við Sæbraut.
Blóm á vettvangi þar sem ung kona lést við Sæbraut. mbl.is/Ólafur Árdal

Banaslys í lok síðasta mánaðar, þegar ekið var á gangandi vegfaranda á Sæbraut, er alvarleg áminning til almennings um hraðakstur og umferðarmenningu í höfuðborginni.

Lögreglu var tilkynnt um 152 umferðarslys á mánuði að meðaltali árin 2019 til 2023. Meðaltalið fyrir síðustu 12 mánuði var töluvert hærra eða 167 tilkynningar á mánuði, samkvæmt samantekt lögreglunnar fyrir Morgunblaðið.

Hafa ber þó í huga að í þessum tölum eru bara tilkynningar sem berast lögreglunni um umferðarslys, en ekki koma öll slys á hennar borð.

Flest slys á fólki í fyrra

Þegar borin eru saman gögn um umferðarslys frá Umferðar- og áætlunardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sést að í ár höfðu 417 manns slasast í umferðinni og þar af tveir látist, þegar enn eru þrír mánuðir eftir af árinu. Árið 2019 slösuðust 480 manns í umferðinni á þessu tímabili, 451 árið 2020, 552 árið 2021, 592 árið 2022 og flestir slösuðust í fyrra, eða 616 manns.

Það er þó mikilvægt að hafa í huga að mestu dýfurnar í fjölda tilkynninga eru þau ár þar sem ýmsar takmarkanir voru í gildi sökum Covid-19. Til að mynda voru skráð 183 umferðarslys í október 2019 sem er svipaður fjöldi og var skráður í október hvert ár, að árinu 2020 undanskildu.

Fjöldi skráðra umferðarslysa náði toppi á seinni hluta ársins 2023. Metfjöldi umferðarslysa var skráður í ágúst það ár, þegar skráð voru 208 og í september sama ár voru slysin 201.

Tvö banaslys á árinu

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild, segir að slysafjöldi geti verið sveiflukenndur, en fleiri slys fylgi einnig aukinni umferð.

„Okkur hefur samt tekist að fækka banaslysum á höfuðborgarsvæðinu með áberandi hætti frá árum áður, en það eru náttúrulega sveiflur í þessu. Ef við horfum á banaslys á landsvísu þá hefur þeim fjölgað aftur núna og eru orðin 13 á þessu ári.“

Árið 2019 voru sex banaslys á Íslandi en ekkert þeirra var á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu hafa verið tvö banaslys á ári 2020, 2022 og 2023 en árið 2021 sker sig úr með fimm banaslysum á höfuðborgarsvæðinu. Í ár eru banaslys á höfuðborgarsvæðinu orðin tvö.

„Við verðum bara að krossa fingur að banaslysum fjölgi ekki meira en orðið er, því árinu er ekki lokið,“ segir Guðbrandur og bætir við: „Ég hef oft á orði máltækið: Því meiri hraði, því meiri skaði.“

Guðbrandur segir alvarlegustu slysin verða við hraðakstur. „Lögreglan þarf að forgangsraða verkefnum og við reynum að sinna umferðareftirliti og hraðaeftirliti eins og við frekast getum, en vildum geta gert það miklu meir, en við höfum bara þann mannskap sem við höfum.“

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka