Hvað er að gerast í Suðurkjördæmi?

mbl.is fer yfir stöðuna í Suðurkjördæmi.
mbl.is fer yfir stöðuna í Suðurkjördæmi. Samsett mynd

Allir sitjandi þingmenn í Suðurkjördæmi nema einn ætla að sækjast eftir því að vera ofarlega á lista fyrir komandi þingkosningar. Hér í fréttinni er samantekt á framboðum og dagsetningum hjá flokkum í kjördæminu.

Suðurkjördæmi hefur 10 sæti á Alþingi og þar af eitt jöfnunarsæti. Sjálfstæðisflokkurinn var í síðustu kosningum stærsti flokkurinn í kjördæminu og hlaut 24,6% atkvæða og fjóra þingmenn. Framsóknarflokkurinn er með þrjá þingmenn og Flokkur fólksins, Samfylkingin og Viðreisn eru með einn þingmann hver flokkur.

Um er að ræða eitt af þremur landsbyggðarkjördæmum landsins. 

Samfylkingin

Oddný Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, er eini þingmaðurinn í kjördæminu sem ætlar ekki að sækjast eftir áframhaldandi þingsetu.

Hjá Samfylkingunni verður uppstilling og listinn kynntur eftir helgi. Margir hafa sótt um að vera á lista að sögn Eggerts Vals Guðmundssonar, formanns kjördæmisráðs flokksins í kjördæminu.

„Það fá ekki allir sæti sem vilja,“ segir Eggert í samtali við mbl.is.

Oddný G. Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Oddný G. Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisflokkurinn

Hjá Sjálfstæðisflokknum verður kjördæmisþing á Hótel Selfossi á sunnudag þar sem trúnaðarmenn munu fá að raða á listann.

Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, er ein í framboði í 1. sæti á lista og þá er Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, einn í framboði í 2. sæti á lista.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er í 3. sæti á lista flokksins og hann sækist eftir því aftur. Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist einnig eftir 3. sæti en hann gekk í Sjálfstæðisflokkinn eftir síðustu kosningar. Þar að auki er Ingveldur Anna Sigurðardóttir að sækjast eftir 3. sæti.

Einn er búinn að tilkynna framboð í 4. sæti á lista flokksins og er það Eyjamaðurinn Gísli Stefánsson, bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum.

Guðrún Hafsteinsdóttir er fyrst þingmaður Suðurkjördæmis.
Guðrún Hafsteinsdóttir er fyrst þingmaður Suðurkjördæmis. mbl.is/Hákon

Framsókn

All­ir þing­menn Fram­sókn­ar í Suður­kjör­dæmi sækj­ast eft­ir því að halda sæti sínu á lista flokks­ins fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar. Hjá Framsókn er uppstilling og um helgina eða rétt eftir hana ætti listinn hjá flokknum að skýrast nánar.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Fram­sókn­ar, er odd­viti flokks­ins í Suður­kjör­dæmi en hann ætlar að vera í 2. sæti á lista. Hann hefur tilkynnt á facebook að Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, muni vera oddviti listans í Suðurkjördæmi. 

Suður­nesjamaður­inn Jó­hann Friðrik Friðriks­son, þingmaður Fram­sókn­ar, verm­ir 2. sæti á lista flokks­ins í kjör­dæm­inu og seg­ir í sam­tali við mbl.is að hann muni gefa kost á sér í það sæti aft­ur.

Í 3. sæti á lista er svo þingmaður­inn Haf­dís Hrönn Haf­steins­dótt­ir og hún vill einnig gefa kost á sér í það sæti aft­ur.

Sigurður Ingi Jóhansson er oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.
Sigurður Ingi Jóhansson er oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi. mbl.is/Hákon

Viðreisn

Hjá Viðreisn verður uppstilling og er stefnt að því að kynna lista flokksins eftir helgi.

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar og oddviti flokksins í kjördæminu, segir í samtali við mbl.is að hann gefi kost á sér til að leiða lista flokksins í komandi kosningum.

Guðbrandur Einarsson er oddviti Viðreisnar.
Guðbrandur Einarsson er oddviti Viðreisnar. mbl.is/Arnþór

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins fer einnig í uppstillingu og gert er ráð fyrir því að kynna lista flokksins eftir helgi.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og oddviti flokksins í kjördæminu, segir í samtali við mbl.is að hún muni sækjast eftir því að leiða lista flokksins áfram í komandi kosningum.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, er oddviti Flokks fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, er oddviti Flokks fólksins. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Vinstri græn

Vinstri græn fara í uppstillingu og stefna að því að kynna lista um miðja næstu viku.

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ritari VG og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, stefnir að því að leiða flokkinn í kjördæminu í komandi kosningum en flokkurinn náði ekki inn þingmanni í síðustu kosningum.

Hólmfríður Árnadóttir.
Hólmfríður Árnadóttir.

Píratar

Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, liggur undir feldi og er að íhuga hvort að hún ætli að sækjast eftir oddvitasæti í prófkjöri flokksins. 

Miðflokkur og Sósíalistar

Hjá Miðflokknum verður uppstilling og er óljóst hverjir sækjast eftir því að vera á lista hjá þeim. Uppstilling verður hjá Sósíalistum og listar verða kynntir fyrir 30. október. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka