„Langflestir flokkar höfðu samband við mig“

Halla Hrund segir alltaf stóra ákvörðun að fara í stjórnmál …
Halla Hrund segir alltaf stóra ákvörðun að fara í stjórnmál og að vanda valið á flokknum.

Halla Hrund Logadóttir, segir flesta stjórnmálaflokka landsins hafa haft samband við sig í tengslum við kosningarnar framundan. Mun Halla leiða Framsókn í Suðurkjördæmi.

„Langflestir flokkar höfðu samband við mig,“ segir fráfarandi orkumálastjórinn sem hyggur nú á sitt annað framboð innan fjögurra mánaða – í þetta sinn í mun pólitískari baráttu en í fyrra skiptið.

Aðspurð hvort Framsókn hafi verið hið augljósa val segir Halla alltaf stóra ákvörðun að fara í stjórnmál og að vanda valið á flokknum.

Það sé mikill heiður að fá að leiða Framsókn í kjördæminu og kveðst Halla brenna fyrir samvinnu- og málamiðlanahugsjón flokksins, sem hún álítur hvorki vera til hægri né vinstri á hinu pólitíska litrófi. Þau sjónarmið séu framtíð stjórnmálanna að hennar mati.

„Ef það er eitthvað sem ég lærði í baráttunni er hvað það er margt gott í fólki í öllum stjórnmálaflokkunum.“

Elskar landsbyggðina

Hún segir mörg mál brenna á sér en fyrst og fremst séu það umhverfis-, orku-, og auðlindamálin sem séu á miklum tímamótum. Þá eru málefni landsbyggðarinnar henni einnig afar hugleikin.

„Sem ég elska, svo það sé nú bara orðað þannig.“

Spurð hvort hún fallist á stefnu Framsóknar að virkja meira kveðst Halla sem orkumálastjóri hafa komið að mörgum stórum verkefnum á vettvangi jarðhita og veitt leyfi fyrir fleiri megavöttum en áratugina á undan. Auðlindir landsins séu að hennar mati mjólkurkýr samfélagsins sem þurfi að passa upp á.

„Þetta snýst um skynsama nýtingu og vandaða nýtingu og að samfélagið okkar sé að fá ábata auðlinda.“

Er Halla hlynnt því að virkja meira?

Þannig ert þú hlynnt því að virkja meira?

„Ég held að þetta hafi svarað spurningunni. Þessar tölur og allt þetta. Er það ekki? Nýting auðlinda er eitthvað sem er mikilvægt fyrir samfélagið.“

Það er svona smá óskýrt hvað er meint með því.

„Ég sagði t.d. hvað hefur verið veitt leyfi fyrir mörgum [megavöttum] þannig það hefur svo sannarlega verið sókn í orkumálunum.“

Spurð hvers kyns virkjunarmöguleikum hún væri opin fyrir segir Halla fyrst og fremst mikilvægt að það sé fagleg umgjörð um orkumálin. T.d. sé nú töluverð ásókn í að virkja hafvind.

„Við erum enn ekki komin með lagaumgjörð til að tryggja að ábatinn renni til samfélagsins. Það er dæmi um svið sem skiptir máli að klára.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka