„Það eru náttúrulega bara fjárlög“

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Hákon

„Við munum fara yfir minnisblöð um þessi mál sem mikilvægast er að klára. Það eru náttúrulega bara fjárlög og fjárlagatengd mál. Það liggur í augum uppi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, um fyrsta ríkisstjórnarfund starfsstjórnarinnar sem hefst eftir skamma stund.

Hann segir engan öldugang hafa verið á ríkisráðsfundi í gærkvöldi. Um hafi verið að ræða endi á löngu samstarfi með formlegum hætti og að kveðjustundin hafi þá frekar verið á ríkisstjórnarfundi í gær.

Stefni á að klára fjárlög með sóma

Áttu von á því að margir þingfundir verði haldnir fram að kosningum?

„Nei, við eigum eftir að fara yfir það en þingið hefur verið að skoða það og ráðuneytin þannig að við munum bara fara yfir það næstu daga.“

Hann segir að starfsstjórnin muni nú halda í það verkefni að klára fjárlögin með sóma og í samtali við þingið.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að vinna með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar segir hann það augljóst að nokkur órói hafi verið um tíma í flokkunum en að fyrst verði að klára kosningar áður en það samtal geti átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert