„Við þurfum að hafa hraðar hendur“

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Hákon

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir gærdaginn marka mikil þáttaskil en eftir sjö ár í ráðherrastól er hún aftur orðin almennur þingmaður. Hún segir flokkinn þurfa að hafa hraðar hendur til að vinna upp fylgi fyrir komandi kosningar í lok nóvember.

Svandís ræddi við blaðamenn að loknum ríkisráðsfundi fyrr í kvöld þar sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, staðfesti lausnarbeiðni þriggja ráðherra Vinstri grænna.

Svandís segir kveðjustundina hafa verið einlæga og heiðarlega og nú taki við að tengja tölvuna sína niður á þingi.

Skerpa áherslurnar

Nú er ekki langt til kosninga, hvernig hyggstu hækka fylgi flokksins þangað til?

„Bara svona eins og maður gerir það. Með því að skerpa áherslurnar, tala við kjósendur og fara út um land og raða upp listum. Við þurfum að hafa hraðar hendur. Við höfum 45 daga frá og með deginum í dag fram að kjördegi þannig að þetta snýst um að halda til haga sérstöðu VG.“

Telurðu að þessi ákvörðun sem þið tókuð um að starfa ekki áfram í ríkisstjórn gæti haft þau áhrif að fylgi flokksins hækki?

„Ég veit það ekki, það verður að koma í ljós. Ég vona að við séum fyrst og fremst valin fyrir málefnin. Mér finnst það vera það sem skiptir mestu máli. Nú er þetta tímabil í raun og veru að baki og þessi kafli er búinn sem við vorum að ljúka hér í dag.“

Nú reyni á þingið

Um hvort fjárlagafrumvarpið njóti hennar stuðnings segir Svandís að yfirleitt séu gerðar töluverðar breytingar á frumvarpinu á milli umræðna og að ríkisstjórnin hafi skoðað ýmislegt og ýmsar tillögur sem gætu komið til álita.

„Núna reynir á þingið. Þetta hefur áður gerst að þingið hafi, án þess að það væri meirihluti í ríkisstjórn, getað komið sér saman um afgreiðslu fjárlaga og ég held að það reyni núna á það virkilega að við séum að tala saman þvert á flokka og ég held að við þurfum að sýna hvað þingið getur verið ábyrgt þegar á reynir.“

Þá segir hún flokkinn vera á þingi til þess að gera gagn og nálgast frumvarpið af ábyrgð.

Leggja áherslu á kvenréttindi og loftslagsmál

Aðspurð hvort hún óttist að Vinstri græn þurrkist af þingi í næstu kosningum segir Svandís að það sé ekki planið og að flokkurinn muni leggja áherslu á sína málefnalegu sérstöðu.

Þá nefnir hún kvenréttindi og loftslagsmál sem dæmi um þau mál sem flokkurinn muni halda til haga.

„Það er sótt að réttindum kvenna um allan heim og það gerist líka hér á Íslandi og ungar konur þurfa að glíma við kynjakerfið sem að við þurftum líka að gera fyrir 20 og 40 árum. Þannig það er ofboðslega mikilvægt að við höldum kvenfrelsinu hátt á lofti.“

Segir hún jafnframt að loftslagsmálin megi ekki hverfa af dagskrá Alþingis.

„Maður tekur eftir því í pólitískri umræðu að þegar það er mikið á dagskrá í svona spennumálum dagsins þá hafa þau tilhneigingu til að gleymast en þau snúast auðvitað um framtíð mannkyns og framtíð lífs á jörðinni og eru kannski það sem skiptir öllu máli þegar öllu er á botninn hvolft.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert