Vilja klára brýnustu mál fyrir 15. nóvember

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, telur þingið hafa möguleika á að …
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, telur þingið hafa möguleika á að ljúka brýnustu málum fyrir 15. nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér sýnist óvissa og ágreiningur sem var um hugtakanotkun og annað fyrr í vikunni sé allt saman meira eða minna leyst. Línur hafa skýrst mikið á síðustu sólarhringum.“

Þetta segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, í samtali við blaðamann mbl.is.

Hann segir annasama tíma fram undan en að hann telji þingið hafa möguleika á að ljúka brýnustu málum fyrir 15. nóvember, undir nýrri starfsstjórn.

„En það reynir auðvitað mjög á að það verði góð samstaða milli flokka um afgreiðslu mála því að það er ljóst að ef ágreiningur kemur upp að þá er mjög lítill tími til að leysa úr því.“

Ómarkvisst að funda í öðrum nefndum

Kveðst Birgir hafa átt góða fundi í dag með þingflokksformönnum til að fara yfir hvaða verkefni verði lögð áhersla á að ljúka fyrir kosningar.

„Þar hefur megináherslan verið á fjárlög og fjárlagatengd mál og mér heyrist að það sé ágæt samstaða um að ljúka þeim málum með sómasamlegum hætti.“

Inntur eftir því með hvaða sniði nefndarstörf verði undir starfsstjórn kveðst Birgir sjá fyrir sér að fundir fari fram í þeim nefndum sem séu nauðsynlegar til afgreiðslu fjárlaga og fjárlagatengdra mála.

„Þannig að ég geri ráð fyrir því að það verði fyrst og fremst fundað í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Það er ekki útilokað að það komi til funda í öðrum nefndum en ég myndi halda að það væri ómarkvisst þegar megináherslan er á fjárlög og fjárlagatengd mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert