Íslendingar gætu átt aðkomu að norrænum her

Þing Norðurlandaráðs verður haldið í Reykjavík dagana 27. til 31. …
Þing Norðurlandaráðs verður haldið í Reykjavík dagana 27. til 31. október. mbl.is/Brynjar Gauti

Þing Norðurlandaráðs verður haldið í Reykjavík dagana 27. til 31. október. Bryndís Haraldsdóttir forseti Norðurlandaráðs segist ekki telja að væntanlegar alþingiskosningar hér á landi og kosningabaráttan þeim tengd muni hafa áhrif á þingstörfin.

„Ég spái öflugu og góðu þingi,“ segir Bryndís við Morgunblaðið.

Formennskuáætlun Íslands fyrir Norðurlandaráð var kynnt á þingi ráðsins í Ósló á síðasta ári undir yfirskriftinni Friður og öryggi á norðurslóðum. Bryndís segir að það sem hafi verið hvað viðkvæmast á þessu ári og mestur tíminn farið í sé að finna pólitíska lendingu í því hvernig breyta eigi Helsingforssamningnum, sem er frá árinu 1962 og er eins konar stjórnarskrá Norðurlandaráðs. Hefur forsætisnefnd Norðurlandaráðs unnið að tillögu um uppfærslu á samningnum sem kveður á um hvernig haga beri opinberu norrænu samstarfi, þar sem öryggismál verði einnig hluti af samningnum.

Bryndís Haraldsdóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norrænn her?

„Það er mikill samhugur hjá þingmönnum Norðurlanda um að uppfæra samninginn og taka þar inn öryggis- og varnarmál sem ekki eru þar inni af sögulegum ástæðum,“ segir Bryndís.

„Samningurinn fjallar um þá þætti þar sem við viljum eiga öflugt samstarf. Þar hafa öryggis- og varnarmál ekki verið. Þingmenn hafa þó sammælst um stefnu um samfélagsöryggismál og vilja auka þá samvinnu. Og nú sjáum við mikinn áhuga norrænna þingmanna á öflugu samstarfi á vettvangi öryggis- og varnarmála. Það hafa verið haldnir margir fundir og málþing um þetta, bæði á vettvangi Norðurlandaráðs og annarra samstarfsaðila okkar. Ég hef látið hafa eftir mér að ég telji mikla þörf á öflugu norrænu samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála og að á einhverjum tímapunkti gætum við verið að horfa á norrænan her. Sú orðræða mín hefur fengið misjöfn viðbrögð en það er ljóst að við sjáum aukið samstarf milli norrænu herjanna, einkum flugherjanna, í innkaupum, æfingum og öðru utanumhaldi. Mér finnst það engin fjarstæð hugmynd að við munum sjá nánara samstarf á því sviði.“

Hvernig kæmi hið herlausa Ísland að því samstarfi?

„Ég hef svarað þeirri spurningu þannig, að hugsanlega opni norrænu herirnir dyr sínar fyrir íslenskum ríkisborgurum. Það hafa norski og danski herinn gert. Í sænska og finnska hernum mega aðeins vera ríkisborgarar þeirra ríkja. Ég er ekki að tala fyrir íslenskum her, en ég held að ástandið í heiminum sé þannig að við þurfum virkilega að huga að öryggis- og varnarmálum okkar og þá er ég einnig að hugsa um breiðara samhengi hlutanna. Öryggi á norðurslóðum er margs konar, svo sem matvælaöryggi, fjarskiptaöryggi, samskiptaöryggi og við glímum við alls konar áskoranir vegna loftslagsbreytinga og bráðnandi íss. Hugmyndin um aukið samstarf snýst því einnig um þessa þætti, samfélagslegt öryggi.“

Vilja fulla aðild

Múte B. Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar, lýsti því yfir fyrr á þessu ári að hann myndi ekki taka þátt í væntanlegum fundum Norðurlandaráðs til að mótmæla því að Norðurlandaráð vilji ekki fallast á að Grænland, Færeyjar og Álandseyjar fái fulla aðild að ráðinu.

Aksel V. Johannesen lögmaður Færeyja hefur einnig lagt áherslu á að Færeyjar fái fulla aðild að ráðinu og Færeyingar vilji taka virkan þátt í varnarsamstarfi Norðurlanda. Þessi tvö lönd hafa tvo fulltrúa hvort í Norðurlandaráði í boði Danmerkur, en eru ekki fullgildir aðilar og eiga ekki sæti í forsætisnefnd ráðsins.

Bryndís segir að þetta sé flókið mál en hún hefur áður sagt að hún vonist til að hægt verði að stíga skref í þessa átt á þinginu í Reykjavík. Hún kveðst hafa farið ásamt Oddnýju Harðardóttur, varaforseta Norðurlandaráðs, til Grænlands til að heyra hljóðið í Grænlendingum og reyna að telja Egede hughvarf og fá hann til að koma á þingið í Reykjavík.

„Hann hefur ekki gefið endanlegt svar um það en ég ætla að vera bjartsýn. Ég veit að grænlenskir þingmenn munu mæta og grænlenski utanríkisráðherrann einnig,“ segir hún.

Þingfundir Norðurlandaráðs verða haldnir í Ráðhúsi Reykjavíkur en nefndarfundir verða í Smiðju, nýrri skrifstofubyggingu Alþingis við Vonarstræti. Bryndís segir að alþjóðlegir gestir muni sækja þingið, þar á meðal frá Skotlandi, Þýskalandi og fleiri löndum. „Mér sýnist að áhuginn sé töluverður og ég hef séð það á þessu ári að mörg ríki horfa mikið til Norðurlandaráðs sem fyrirmyndar fyrir svæðisbundna samvinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert