Líf mitt gjörsamlega hrundi til grunna

Halldór Armand hyggst framvegis láta gleðina ráða för, í skrifum …
Halldór Armand hyggst framvegis láta gleðina ráða för, í skrifum sínum og lífinu öllu. Mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég lenti í áfalli í fyrra, um hásumar. Allt byrjaði það með því að mér var sagt upp, yfir mig helltist gífurleg ástarsorg og líf mitt gjörsamlega hrundi til grunna. Ég skynjaði þó fljótt að þessi vanlíðan snerist um eitthvað miklu stærra en bara ástarsorg.“

Þetta segir Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins en hann sendi á dögunum frá sér nýja skáldsögu, Mikilvægt rusl. 

Þegar þetta gerðist var Halldór uppi í sumarbústað hjá Steinari Braga, vini sínum og rithöfundi, en hann hefur verið honum mikill mentor gegnum tíðina, og það þyrmdi yfir hann. „Ég hef aldrei lent í öðru eins, þetta var algjör martröð og ég myndi ekki óska mínum versta óvini að lenda á þessum stað.“

Höggið kom Halldóri í opna skjöldu. „Ég botnaði satt best að segja ekkert í þessu, þetta gerðist svo óvænt. En tilfinningin á þessum tímapunkti var sú að ég myndi ekki komast út úr þessu. Mér leið eins og mér væru allar bjargir bannaðar og líf mitt misheppnað og ónýtt. Svo djúpt var ég sokkinn. Steinar Bragi sagðist líka aldrei hafa heyrt neinn tala með þeim hætti sem ég gerði þegar ég lýsti fyrir honum hversu ömurlega það lét mér líða að skrifa og vera rithöfundur. Mér fannst allt sem ég skrifaði gjörsamlega hræðilegt.“

Djúpstæður ótti við höfnun

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst, eins og þar stendur. Steinar Bragi stóð þétt við bakið á vini sínum og kom honum meðal annars með hraði í meðferð hjá EMDR-miðstöðinni, þar sem unnið er úr áföllum með öðrum hætti en hefðbundinni viðtalsmeðferð. Hófst þá mikil sjálfsvinna.

„Ég uppgötvaði þar fljótt að rót þessarar vanlíðunar og eiginlega sjálfsfyrirlitningar var djúpstæður ótti við höfnun, sem ég hafði ekki verið meðvitaður um. Það var ótrúleg uppgötvun. Hvað stendur yfir hofi véfréttarinnar í Delfí? Þekktu sjálfan þig! Þarna hafði ég verið í eitt og hálft ár að skrifa skáldsögu og það hafði fyllt mig kvíða. Ekki nóg með að ég nyti ekki verksins, það var beinlínis að ganga frá mér. Sú uppgötvun varð til þess að ég hætti þessu öllu og henti skáldsögunni í ruslið og hef ekki litið á hana síðan.“

Sveppurinn er ótrúleg vera

Smám saman náði hann vopnum sínum. „Geðið í manni er skip sem snýr sér hægt, eins og Steinar Bragi segir, batinn er ekki línulegur. Júlí og ágúst voru versti tími lífs míns en í september og október fór að rofa aðeins til. EMDR-meðferðin er ótrúleg og hjálpaði mér mjög mikið á lygilega skömmum tíma, auk þess sem ég byrjaði líka að míkródósa sveppi. Mörgum finnst þetta eflaust mjög speisað, en sjálfum finnst mér mun speisaðra að bryðja óhikað einhverja töflu sem er búin til á rannsóknarstofu, heldur en náttúrulega lífveru sem vex af hógværð úti í skógi. En vitundarvakningin um möguleg, líknandi áhrif sílósíbíns er hafin.“

Nýjasta skáldsaga Halldórs heitir Mikilvægt rusl og fjallar um litríkt …
Nýjasta skáldsaga Halldórs heitir Mikilvægt rusl og fjallar um litríkt gallerí manna sem starfar við sorphirðu. Mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir


Hann heldur áfram: „Þetta áfall og uppbyggingin eftir það er rosalegasti skóli sem ég hef farið gegnum. Sársaukinn var ævintýralegur en lærdómurinn sömuleiðis. Fyrir það er ég mjög þakklátur.“

Seint í september var Halldór orðinn nógu brattur til að setjast niður við tölvuna. „Kannski ég prófi að skrifa eitthvað, hugsaði ég með mér. Og það var bara ein regla: Ég ætla að skemmta mér á hverri einustu blaðsíðu og skrifa bara um persónur sem ég sjálfur dýrka. Skemmti ég mér ekki, þá hætti ég strax að skrifa.“

Núna flaug þetta áfram

Og viti menn, hann fór á flug. „Ég skrifaði alltaf svo hægt og fæðingin var alltaf svo erfið. Alla jafna hefur það tekið mig tvö ár að skrifa skáldsögu en núna flaug þetta áfram, bara eins og þegar ég var að byrja að skrifa sem unglingur. Bæði var þetta mjög gaman, ég grenjaði úr hlátri meðan ég var að skrifa, og svo tengi ég þessar sögur við fjölskyldu mína, kærleika og persónur sem eru mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Þannig urðu skrifin ígildi þerapíu og hjálpuðu mér að koma aftur undir mig fótunum í lífinu. Það átti sér stað einhvers konar egódauði, ég bara get ekki orðað það öðruvísi, og án þess hefði þessi bók aldrei orðið til.“

Ítarlega er rætt við Halldór í Sunnudagsblaðinu en honum líður ljómandi vel í dag og hefur í raun enduruppgötvað sig sem rithöfund. Gleðin hefur sigrað óttann og kvíðann. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert