Vistmaður og starfsmaður á bráðamóttöku

Starfsemi getur haldið áfram að einhverju leyti í álmunni þar …
Starfsemi getur haldið áfram að einhverju leyti í álmunni þar sem eldurinn kom upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn vistmaður og einn starfsmaður á meðferðarheimilinu Stuðlum voru fluttir á bráðamóttöku eftir að eldur kom upp í herbergi vistmanns þar á sjöunda tímanum í morgun.

Þetta staðfestir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is, en hann hefur ekki upplýsingar um líðan þeirra. Þá getur hann ekki sagt til um eldsupptök að svo stöddu.

Skúli segir að tilkynning um eld hafi borist klukkan 6:40 í morgun og að kjölfarið hafi viðbragðsaðilar farið á staðinn. Vel gekk að ráða að niðurlögum eldsins.

Þarf alltaf einhver tími að líða

Átta vistmenn voru í álmunni þegar eldurinn kviknaði en Skúli hefur ekki upplýsingar um fjölda starfsmanna. Hann segir starfsemina geta haldið áfram að einhverju leyti í álmunni í dag. Einhver tími þarf hins vegar að líða þar til hægt er að rannsaka vettvanginn.

„Brunavettvangur er alltaf þannig og rannsókn að það þarf alltaf einhver tími að líða þar til hægt er að rannsaka vegsummerki. Það gerist ekki einn, tveir og þrír. Þetta tekur allt tíma,“ útskýrir Skúli.

En málið er nú komið inn á borð bæði rannsóknar- og tæknideildar lögreglu.

Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Barna- og fjölskyldustofu, sem rekur Stuðla, vildi ekki tjá sig um málið þegar mbl.is náði tali af honum, en vísaði til þess að yfirlýsing yrði send út síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert