Meirihluti þingmanna VG farinn á brott

Fimm af átta þingmönnum VG verða ekki á lista fyrir …
Fimm af átta þingmönnum VG verða ekki á lista fyrir næstu alþingiskosningar. Samsett mynd

Fimm af þeim átta þingmönnum VG sem fengu sæti á þingi eftir síðustu þingkosningar verða ekki á lista flokksins fyrir næstu þingkosningar. Þetta varð ljóst í kvöld eftir að Jódís Skúladóttir, þingmaður VG í Norðausturkjördæmi, væri ekki að fara fram í næstu þingkosningum.  

Þeir fimm þingmenn sem hófu síðasta kjörtímabil hjá VG en verða ekki áfram voru Katrín Jakobsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir í Reykjavíkurkjördæmi norður, Bjarni Jónsson úr Norðvesturkjördæmi og þær Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Jódís Skúladóttir úr Norðausturkjördæmi.

Bjarni, Bjarkey og Steinunn Þóra tilkynntu um að þau myndu ekki fara fram fyrir flokkinn að nýju. Jódísi var hafnað af uppstillinganefnd og Katrín hætti á miðju kjörtímabili til að fara í forsetaframboð.

Þrír sem verða áfram

Vinstri Græn fengu 12,6% fylgi í síðustu alþingiskosningum en flokkurinn hefur lægst mælst með 2,2% fylgi í síðustu könnun frá könnunarfyrirtækinu Prósenti. 

Þeir þingmenn sem hófu síðasta kjörtímabil en hafa ekki tilkynnt um að þeir hyggist hætta eru Svandís Svavarsdóttir og Orri Páll Jóhannsson úr Reykjavík Suður og Guðmundur Ingi Guðbrandsson úr Suðvesturkjördæmi. Þá tók Eva Dögg Davíðsdóttir sæti Katrínar Jakobsdóttur á miðju kjörtímabili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert