Mikil bylgja jákvæðni eftir stjórnarslitin

Bjarni ræddi við mbl.is eftir fundinn í Valhöll í dag.
Bjarni ræddi við mbl.is eftir fundinn í Valhöll í dag. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór/mbl.is/Ólafur Árdal

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokksmenn sína tilbúna til að heyja snarpa en öfluga kosningabaráttu. Þá segist hann hafa fundið fyrir mikilli bylgju jákvæðni eftir að hafa tekið ákvörðun um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi.

Raðað var í efstu fjögur sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi á fundi kjördæmaráðs í Valhöll í dag. Bjarni var sjálfkjörinn í fyrsta sæti.

Í öðru sæti var valinn varaformaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Bryndís Haraldsdóttir er þriðja á lista og Rósa Guðbjartsdóttir sú fjórða.

„Mér finnst standa upp úr eftir þennan fund að fólk er tilbúið til þess að fara út í kosningabaráttu og heyja hér snarpa en öfluga kosningabaráttu sem mun snúast um það að lyfta gildum Sjálfstæðisflokksins og okkar baráttumálum hátt á loft,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is að fundinum loknum.

Ákvörðun Jóns kom á óvart

Segir hann mjög ánægjulegt að sjá hvað mikill kraftur hafi færst í öll kjördæmin og að kjördæmisþing hafi verið fjölmenn í dag. Í Suðvesturkjördæmi hafi verið góð og virk þátttaka.

Helst var þar að frétta að Þórdís Kolbrún hafði betur gegn Jóni Gunnarssyni um annað sæti listans. Jón tilkynnti í kjölfarið að hann hygðist ekki ætla að gefa kost á sér í önnur sæti á lista.

Segir Bjarni að ákvörðun Jóns hafi komið sér á óvart, sérstaklega í ljósi þess að hann hefði fengið talsverðan stuðning í kosningum á móti varaformanni flokksins.

Fjölmennt var í Valhöll í dag.
Fjölmennt var í Valhöll í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Engin trygging fyrir því hvernig úr myndi spilast

Alþingiskosningarnar verða 30. nóvember en Bjarni sleit ríkisstjórnarsamstarfinu fyrir viku síðan.

Sagði hann við blaðamann í dag að mörgum hafi fundist ákveðinn skuggi hafa fallið á þau í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna.

Segist Bjarni hafa skilning á því og það hafi verið áskorun að halda saman þriggja flokka stjórn.

„Ég ákvað á endanum að það væri ekki ástæða til þess að framlengja samstarfið í gegnum þennan þingvetur heldur að ganga strax til kosninga og ég hef fundið fyrir mikilli bylgju jákvæðni eftir að ég tók þá ákvörðun,“ segir Bjarni.

„Ég hafði svo sem enga tryggingu fyrir því nákvæmlega hvernig úr myndi spilast en ég er mjög glaður í dag. Ég heyri það á frambjóðendum úr öllum kjördæmum að þeir finna fyrir því að flokkurinn er í sókn í öllum landshlutum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert