„Rannsókn er í fullum gangi“

Tæknideild lögreglunnar var við störf á vettvangi í gær.
Tæknideild lögreglunnar var við störf á vettvangi í gær. mbl.is/Ólafur Árdal

Bruninn á Stuðlum í gær þar sem 17 ára barn lét lífið og starfsmaður slasaðist, er nú kominn inn á borð til miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu.

Tæknideild lögreglunnar fer með rannsókn á vettvangi og eldsupptökum og var hún að störfum á Stuðlum í gær.

Þetta staðfestir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, í samtali við mbl.is, en eldurinn kom upp á sjöunda tímanum í gærmorgun.

Eldsupptök liggja ekki fyrir

Elín hefur ekki upplýsingar um stöðu á rannsókn tæknideildarinnar, eða hvort náðst hafi að ljúka vinnu á vettvangi í gær. „En rannsókn er í fullum gangi og lítið meira að segja að svo stöddu.“

Spurð út í eldsupptök og hvort grunur sé um íkveikju segir hún það til rannsóknar. „Það er til rannsóknar og ekki búið að komast að endanlegri niðurstöðu hvað það varðar. Það er ekkert sem liggur fyrir.“

Svo virðist sem eldur hafi komið upp í herbergi vistmanns. „Það á svo eftir að fá endanlega niðurstöðu með það frá tæknideildinni.“

Alltaf þarf einhver tími að líða áður en hægt er hefja fulla rannsókn á vettvangi, meðal annars vegna eiturgufa.

Barn lést í brunanum og starfsmaður slasaðist.
Barn lést í brunanum og starfsmaður slasaðist. mbl.is/Ólafur Árdal

Starfsemi Stuðla færð yfir á Vog

Fram kom í yfirlýsingu frá Ólöfu Ástu Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu, í gær að húsnæði Stuðla væri mikið skemmt og að ekki væri unnt að halda þar úti hefðbundinni þjónustu. 

Gert hefði verið samkomulag við SÁÁ um tímabundin afnot af húsnæði á Vogi þar sem hliðrað hefði verið til á meðan unnið væri að viðgerðum á Stuðlum.

Um væri að ræða hús­næði sem unnt væri að aðskilja frá al­mennri starf­semi þar sem sér­fræðing­ar Stuðla og Barna- og fjöl­skyldu­stofu gætu haldið áfram að hlúa að börn­un­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert