Túlkar sorgina með svipbrigðum

Þorsteinn Gunnarsson naut vinnu sinnar við kvikmyndina Missi.
Þorsteinn Gunnarsson naut vinnu sinnar við kvikmyndina Missi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það litla sem hann segir í myndinni segir hann utan myndar. Þannig að ég þurfti að miklu meira leyti að túlka missi hans og sorg með svipbrigðum en orðum. Það reyndi á. Það var einmitt þetta, hversu lítill textinn er, sem dró mig mest að handritinu.“

Þetta segir Þorsteinn Gunnarsson um persónuna sem hann leikur í kvikmyndinni Missi eftir Ara Alexander Ergis Magnússon en hún byggist á skáldsögu Guðbergs heitins Bergssonar. 

Þorsteinn og Sigurður Sigurjónsson í hlutverkum sínum í Missi.
Þorsteinn og Sigurður Sigurjónsson í hlutverkum sínum í Missi.

„Hann á líka erfitt með að orða hugsanir sínar og orði hann þær er hann sjaldnast ánægður með það sem út úr honum kemur. Sjálfur hefur hann orð á því að menn þurfi síður að skammast sín fyrir hugsanir sínar en þau orð sem þeir láti út úr sér.“ 

Þurfti að skapa bakgrunninn

Um forsöguna hafði Þorsteinn ekki mikið, hvorki úr bókinni né handritinu, „þannig að ég þurfti í reynd að skapa mér bakgrunn mannsins að miklu leyti. Að vísu lá fyrir að hann er enginn framkvæmdamaður og að hann hefur áhuga á myndlist og safnar minningargreinum og öðrum blaðaúrklippum. Svolítið svona nörd.“

Þorsteinn fékk góðan tíma með karakternum en tökuferlið var nokkuð langt. Ari leikstjóri hafði samband við hann í desember 2021 og tökur hófust snemma árs 2022 en síðustu hljóðupptökum lauk ekki fyrr en vorið 2023. „Á meðan reyndi á að halda hugarró og þessum þræði. Þetta er óvenju langur tími til að lifa með einum og sama karakternum.“

Ari Alexander Ergis Magnússon leikstjóri myndarinnar.
Ari Alexander Ergis Magnússon leikstjóri myndarinnar. Mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Þorsteinn lýkur lofsorði á Ara leikstjóra. „Ég bar fyllsta traust til hans sem leikstjóra. Hann er mjög hugmyndaríkur og með skýra myndræna sýn. Ari virkilega vandaði sig við gerð þessarar myndar og kom aldrei með ódýrar lausnir. Missir er mjög fallegt listaverk.“

Ekki sakaði heldur að vinna með góðum meðleikurum og vinum. „Ég hef unnið mikið og náið með bæði Guðrúnu [Gísladóttur] og Sigga Sigurjóns gegnum árin og það var styrkur að hafa þau við hliðina á sér í þessu verkefni.“

Nánar er rætt við Þorstein um Missi og fleira í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert