Bílanefnd ríkisins lögð niður

Bílanefnd ríkisins hefur verið lögð niður.
Bílanefnd ríkisins hefur verið lögð niður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með breytingu á reglugerð um bifreiðamál ríkisins hefur bílanefnd verið lögð niður og ábyrgð og eftirlitshlutverk nefndarinnar færð yfir til forstöðumanna stofnana.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Segir þar að nefndin hafi haft það hlutverk að aðstoða ráðuneytið við framfylgni reglugerðar og að kaup á bifreiðum, rekstrarleiga, aksturssamningar og notkun starfsmanna á bifreiðum stofnunar utan vinnu hafi farið fram að fengnu samþykki nefndarinnar.

„Þá hafði nefndin hlutverk í að koma á sameiginlegum innkaupum stofnana á bílum og framfylgni ríkisstjórnarinnar á þeirri ákvörðun að stofnanir skulu aðeins kaupa rafmagnsbíla, en mikill árangur hefur náðst í orkuskiptum á fólksbílum ríkisins,“ segir í tilkynningunni.

Í samræmi við stefnu stjórnvalda um fækkun nefnda

Kemur fram að nefndin sé lögð niður í samræmi við stefnu stjórnvalda um fækkun nefnda, en Ríkisendurskoðun hefur jafnframt lagt til að nefndin verði lögð niður.

„Munu forstöðumenn hér eftir taka ákvarðanir um kaup og leigu bíla sem ekki þurfa að fara fram að fengnu samþykki nefndarinnar, í samræmi við aðrar rekstrarlegar ákvarðanir sem eru á ábyrgð forstöðumanna.

Í ábyrgðinni felst að bílakaup fari, eins og verið hefur, fram í samræmi við áherslur í ríkisrekstri, aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og innkaupastefnu ríkisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert