Engin útskýring á óvenjulegri hegðun

Ferðamenn við Strokk.
Ferðamenn við Strokk. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er í raun ekkert sem útskýrir hvað er að gerast,“ segir Dagur Jónsson, landvörður Umhverfisstofnunar, um hina óvenjulegu hveravirkni á Geysissvæðinu um helgina.

Til að mynda byrjaði einn hver að gjósa aftur eftir áratugalanga pásu og annar hver gaus átta sinnum á 90 sekúndum.

Dagur segir hina óvenjulegu virkni hafa byrjað um helgina án skýringa. Búið sé að skoða öll jarðskjálftagögn og myndir sem sýna landris og landsig en þar séu engin svör að finna.

Virknin svakalega mikil

Þá nefnir hann að hverirnir sem séu að gjósa núna hafi tekið breytingum og nefnir hann hverinn Blesa sem dæmi.

„Þetta er fallegur hver. Hann hallar örlítið niður og svo kemur hellisskúti sem liggur langt ofan í jörðina. Í dag er bara komið svarthol þarna.

Það hefur orðið mikil breyting á þessum hver og virknin er svakalega mikil. Hann er að ná að sletta upp á göngupallinn. Við erum búin að takmarka aðgengi að honum út af því.“

Dagur Jónsson, landvörður Umhverfisstofnunar.
Dagur Jónsson, landvörður Umhverfisstofnunar.

Finnst eins og jafnvægi sé komið

Þá nefnir landvörðurinn einnig hverinn Fötu sem sé farinn að gjósa.

„Fyrir svona 30 árum þá gaus hann alltaf 20 metra háum gosum reglulega en hefur ekki gosið undanfarna áratugi. En hann er að skvetta úr sér núna,“ segir Dagur.

„Svo er Konungshver sem er vanalega bara tær og fallegur og maður sér svona fjóra metra í botninn á honum en hann lítur bara út eins og leirhver í dag og er að lyfta sér upp í svona metra hæð,“ bætir hann við.

Þó segir Dagur, sem var á svæðinu í gærkvöldi og í allan dag, að honum finnist eins og komið sé meira jafnvægi á hveravirknina núna. Næstu skref séu að ræða við heimamenn og athuga hvort þeir hafi orðið varir við breytingar í heitavatnsholum.

„Hvort að það sé eitthvert þrýstingsfall eða breyting á grunnvatnsstöðunni til dæmis.“

Segir hann það geta mögulega útskýrt hina óvenjulegu hegðun hveranna um helgina.

Átta sinnum upp á 90 sekúndum

Í tilkynningu Veðurstofunnar í dag var greint frá því að strókar sumra hvera væru að ná allt að 30 metra hæð og segir Dagur að þar sé um að ræða hverinn Strokk.

„Hann gýs á 10-12 mínútna fresti. Hann hefur verið að fara svona upp undir 30 metra en ég held að ég geti fullyrt að í gær sá ég hann fara átta sinnum á 90 sekúndum upp yfir 30 metra og hann hefur verið að losa smávegis af grjóti og kísil í þessum gosum.“

Myndi loka svæðinu ef það væri hætta

Er þá einhver aukin hætta á svæðinu?

„Nei, það er blankalogn og búið að vera í allan dag og í gær, eða svona nánast. Það er bara búið að vera hér jólasnjókoma í allan dag. Allt orðið hvítt og fallegt. Allir strókar hafa staðið bara beint upp í himininn þannig nei, það er ekki hætta. Ef mér myndi finnast að það væri hætta þá myndi ég loka svæðinu.“

Sérfræðingar Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar og almannavarna fóru yfir stöðuna á fundi nú síðdegis í dag og segir Dagur að fylgst verði með virkninni á næstu dögum.

„Það verður fylgst með og ef eitthvað breytist þá tökum við ákvarðanir út frá því og við hikum ekki við að loka ef því er að skipta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert