Gögn styðja orð Einars: Stöndumst ekki samanburð

Ummæli borgarstjóra fyrr í mánuðinum vöktu mikla úlfúð á meðal …
Ummæli borgarstjóra fyrr í mánuðinum vöktu mikla úlfúð á meðal kennara. Gögn renna þó stoðum undir fullyrðingarnar. Samsett mynd/mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska grunnskólakerfið er dýrt í alþjóðlegum samanburði, kennsluskylda er lítil og fjöldi nemenda á hvern kennara er með því minnsta sem þekkist. Veikindahlutfall kennara er auk þess mun hærra en hjá einkageiranum og hinu opinbera almennt.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri úttekt Viðskiptaráðs. 

Björn Brynjúlfur Björnsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir tölurnar styðja við þau ummæli sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri lét falla fyrr í mánuðinum. Baðst hann síðar afsökunar á þeim.

Mikið fjaðrafok

Eins og mbl.is og Morgunblaðið hafa fjallað um olli það miklu fjaðrafoki um miðjan mánuðinn þegar borgarstjóri tók til máls á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

Í umræðu um vandamál skólakerfisins og yfirvofandi kennaraverkfall sagði hann kennara „veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna“.

Voru viðbrögðin slík að nokkrum dögum síðar þurfti Einar að funda með fulltrúum kennara og biðja þá afsökunar.

Kennurum og starfsfólki fjölgað mun meir en nemendum

Niðurstöður úttektar Viðskiptaráðs renna þó stoðum undir fullyrðingar Einars, eins og áður sagði.

„Við tókum saman helstu tölfræði sem snýr að hagkvæmni grunnskólakerfisins á Íslandi og tölurnar sýna að áhyggjur borgarstjóra voru ekki úr lausu lofti gripnar,“ segir Björn í samtali við Morgunblaðið.

„Undanfarin ár og áratugi hefur kennurum og starfsfólki skólanna fjölgað hraðar en nemendum, kennsluskylda íslenskra kennara er með því lægsta sem þekkist innan OECD og veikindahlutfallið er ríflega tvöfalt á við það sem við sjáum á almennum vinnumarkaði.“

Á meðfylgjandi línuriti úr samantekt Viðskiptaráðs kemur greinilega fram að frá árinu 1998 til ársins 2023 fjölgaði nemendum við íslenska grunnskóla um 12% en á sama tímabili fjölgaði kennurum um 46% og öllu starfsfólki um 70%.

Línuritið sýnir að kennurum og starfsfólki fjölgaði hratt fram til ársins 2008 en fór síðan fækkandi yfir fimm ára tímabil og fjölgar aftur nokkuð skarplega frá 2014 til dagsins í dag.

Veikindahlutfallið töluvert hærra en annars staðar

Á súluriti sem fylgir þessari grein sést jafnframt að veikindahlutfallið á almennum vinnumarkaði, þ.e. skráð veikindi sem hlutfall af viðveru, er 7,4% hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar en 5,7% hjá hinu opinbera almennt og aðeins 3,1% á almennum vinnumarkaði.

Í úttektinni kemur einnig fram að á Íslandi er fjöldi nemenda á hvern grunnskólakennara langt undir meðaltali OECD. Aðeins í Grikklandi og Lúxemborg er fjöldi nemenda á kennara minni.

Eru tæplega 10 nemendur fyrir hvern kennara í íslenska grunnskólakerfinu en í OECD er meðaltalið um 14 nemendur. Í Frakklandi eru til dæmis rúmlega 18 nemendur á hvern kennara á grunnskólastiginu.

Kennsluskyldan með minnsta móti

Þá er kennsluskylda íslenskra kennara með minnsta móti í samanburði við hin OECD-ríkin og aðeins í Lettlandi, Eistlandi og Póllandi er hún minni.

Á Íslandi myndi þurfa að auka kennsluskylduna um nærri þriðjung til að ná meðaltali OECD.

Loks eru heildarútgjöld á hvern grunnskólanemanda á Íslandi, leiðrétt fyrir verðlagi, í hæstu hæðum. Aðeins Noregur og Lúxemborg greiða meira með hverjum nemanda.

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar er árlegur meðalkostnaður á nemanda í íslenskum grunnskólum nú farinn að skaga hátt í 2,9 milljónir á ári.

Eitt stærsta kosningamálið í komandi þingkosningum

Björn segir ljóst að íslenska menntakerfið standist ekki alþjóðlegan saman­burð þegar kemur að hagkvæmni.

Því til viðbótar sýni mælingar að frammistaða nemenda fari versnandi en eins og mbl.is og Morgunblaðið hafa fjallað ítarlega um hefur árangur Íslands verið á hraðri niðurleið í síðustu PISA-prófum.

„Að okkar mati er vandi grunnskólakerfisins eitt stærsta kosningamálið í komandi alþingiskosningum,“ segir Björn.

„Við erum með kerfi þar sem árgangur eftir árgang klárar grunnskóla þar sem stór hluti nær ekki grunnfærni í lestri og reikningi, og það þrátt fyrir að skólakerfið okkar sé það þriðja dýrasta í heimi.“

Vandinn ekki skortur á kennurum

Ýmsar hugmyndir hafa verið viðraðar um hvernig bæta mætti skólakerfið, koma böndum á útgjöld til málaflokksins og á sama tíma koma betur til móts við þarfir nemenda og óskir kennara.

„Ég held að flestir geti verið sammála um að við viljum koma á kerfi sem er hagkvæmt og skilar sem mestum árangri með sem minnstum tilkostnaði, og að tryggt sé að börnin okkar útskrifist með viðunandi færni í lestri og reikningi,“ segir Björn.

„Ástandið í dag er ekki eðlilegt og áríðandi að við komumst til botns í þessum vanda. Tölurnar sýna að vandinn er ekki – eins og má stundum ráða af umræðunni – skortur á kennurum. Þeir eru óvíða fleiri en hér.“

Að mati Björns væri gott fyrsta skref að auka kennsluskyldu kennara til samræmis við það sem tíðkast í samanburðarlöndunum.

„Það myndi bæta nýtingu opinberra fjármuna ef hver kennari kenndi fleiri klukkustundir á ári. Þá þarf að finna út úr því hvað orsakar þetta háa veikindahlutfall hjá stéttinni og leita leiða til að bæta þar úr. Aðgerðir í þá veru myndu bæta starfsumhverfi kennara og um leið gera grunnskólastigið hagkvæmara.“

Sjá úttekt Viðskiptaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert