Starfsfólki með erlendan bakgrunn fjölgað

Alls störfuðu 6.963 í leikskólum í desember 2023 og hafði …
Alls störfuðu 6.963 í leikskólum í desember 2023 og hafði fækkað um 156 frá fyrra ári, mbl.is/Árni Sæberg

Starfsfólki með erlendan bakgrunn hefur fjölgað í leikskólum landsins undanfarin ár en Hagstofan hefur birt í fyrsta skipti tölur um starfsfólk í leikskólum eftir bakgrunni.

Þannig féll hlutfall starfsfólks sem var án erlends bakgrunns úr 78,8% árið 2020 í 71,7% árið 2023 en hlutfall innflytjenda sem starfa í leikskólum hækkaði úr 15,5% í 21,6% á sama tíma.

Í tilkynningu frá Hagstofunni segir að þegar aðeins er litið á kennara og annað starfsfólk við uppeldi og menntun barna, að frátöldum yfirmönnum, voru innflytjendur 23,3% starfsfólks í desember 2023 en 19,8% ef yfirmenn eru taldir með. Hlutfall innflytjenda er þó langhæst á meðal annars starfsfólks, s.s. þeirra sem starfa í eldhúsi og við þrif en í þeim hópi voru innflytjendur 53,0% starfsfólks í desember 2023.

Alls störfuðu 1.802 kennarar með kennsluréttindi í leikskólum á Íslandi í desember 2023. Þar af voru 1.568 menntaðir sem leikskólakennarar. Samtals störfuðu 6.580 við uppeldi og menntun leikskólabarna, þar af 27,4% menntaðir kennarar. Hlutfallið hækkaði lítillega frá árinu á undan þegar það var 26,6%.

Alls höfðu 1.038 starfsmenn við uppeldi og menntun leikskólabarna lokið annarri uppeldismenntun en ófaglært starfsfólk var 56,8% starfsfólks við uppeldi og menntun árið 2023, lítið eitt lægra hlutfall en árið áður.

Tæplega sjö þúsund störfuðu í leikskólum í desember 2023

Alls störfuðu 6.963 í leikskólum í desember 2023 og hafði fækkað um 156 frá fyrra ári, eða um 2,2%. Leikskólabörnum fækkaði um 145 (-0,7%) á sama tímabili. Leikskólar í Grindavík voru ekki starfandi á viðmiðunardeginum 1. desember en í þeim leikskólum störfuðu um 70 starfsmenn árið áður. Starfsmönnum í launuðu leyfi á viðmiðunardeginum fjölgaði um 47 á milli ára og voru 541. Stöðugildum starfsmanna fækkaði um 2,0% og voru 6.151.

Brottfall úr starfi hefur aukist lítið eitt frá fyrra ári en 25,9% starfsmanna við uppeldi og menntun í desember 2022 voru ekki við störf í leikskólum í desember 2023. Á meðal leikskólakennara hækkaði brottfallið úr 10,7% í 12,1% á milli ára. Brottfall á meðal starfsfólks við uppeldi og menntun var mest á meðal ófaglærðra starfsmanna en um þriðjungur þeirra sem var við störf í desember 2022 var ekki starfandi í leikskóla ári síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert