„Þreyttur út um allt og alls staðar“

Þorleifur býr sig hér undir hring númer 53.
Þorleifur býr sig hér undir hring númer 53. mbl.is/Egill Aaron

„Það eru allir náttúrulega alveg hrikalega þreyttir og lúnir en það er alla vega ekkert sem er að stoppa mig,“ segir hlauparinn Þorleifur Þorleifsson sem er nú einn af fjórum sem eftir eru á heimsmeistaramóti landsliða í bakgarðshlaupum í Elliðaárdalnum í Reykjavík.

Þorleifur hafði nýlokið hring 52. þegar blaðamann bar að garði og hafði hann einungis nokkrar mínútur í hvíld áður en hringur 53. hófst.

Ásamt Þorleifi eru þau Elísa Kristinsdóttir, Andri Guðmundsson og Marlena Radziszewska einnig eftir í hlaupinu. Hafa þau nú hlaupið í rúma tvo sólarhringa.

Vonar að ekki verði of kalt í kvöld

Hvernig er heilsan?

„Bara mjög fín, maður er náttúrulega þreyttur út um allt og alls staðar en ekkert stórt sem er að pirra mig.“

Segist hlauparinn í raun ekki hafa sett sér ákveðið markmið en horfir hann þó til Íslandsmetsins sem þyrfti 58 hringi til að slá. Einnig gefur hann í skyn að hann vilji ná að hlaupa 400 kílómetra. Þyrfti hann þá að hlaupa 60 hringi.

Veðurguðirnir hafa ekki verið að gefa hlaupurum mótsins neina greiða í dag þar sem mikið hefur rignt en Þorleifur segir þó veðrið ekki trufla sig.

„Nei, ég er búinn að vera í mjög góðum regnjakka. Hann er hlýr og góður. Ég er bara að vona að það verði ekki of kalt í kvöld,“ segir hlauparinn og heldur áfram í næsta hring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert