Týndur í tvo sólarhringa: Strauk strax eftir brunann

Móðirin segir það hafa verið viðbúið að drengurinn myndi strjúka.
Móðirin segir það hafa verið viðbúið að drengurinn myndi strjúka. mbl.is/Ólafur Árdal

Fimmtán ára drengur, sem vistaður hafði verið á meðferðardeild Stuðla síðan í ágúst, var keyrður heim til foreldra sinna í kjölfar brunans á laugardagsmorgun. Þeir fengu um 15 mínútna fyrirvara.

Drengurinn strauk að heiman um 20 mínútum síðar og hefur nú verið týndur í tvo sólarhringa. 

„Við fengum bara símtal og okkur sagt að það hefði komið upp bruni og að skjólstæðingum yrði skutlað heim. Svo var hann kominn hingað korteri seinna,“ segir móðir drengsins í samtali við mbl.is.

Hann hefur fjórum sinnum strokið af Stuðlum og móðir hans segir það hafa verið viðbúið að hann myndi strjúka heiman frá sér. 

Drengurinn glímir við fíknivanda og fjölskyldan hefur verið frávita af áhyggjum alla helgina. Móðirin segir viðbúið að hann fari aftur í sama farið og áður og byrji aftur í neyslu. 

Sonurinn ekki í öruggu skjóli

Móðirin er ósátt við þær yfirlýsingar forstjóra og framkvæmdastjóra Stuðla að öll börnunum hafi verið komið í öruggt skjól. Það sé svo sannarlega ekki rétt í tilfelli sonar hennar. Þá segist hún hafa upplýsingar um að annað barn hafi strokið eftir að hafa verið keyrt heim.

Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs barna - og fjölskyldustofu og starfandi forstöðumaður Stuðla, segist í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um einstök mál.

En staðan hafi verið þannig á laugardagsmorgun að taka hafi þurft ákvarðanir mjög hratt, þar sem börnin voru í skjóli í strætisvagni á lóðinni eftir brunann.

Ákvarðanir hafi verið teknar eftir bestu vitund á þessum tímapunkti og að allir hafi gert sitt besta til að koma öllum í skjól.

Leit ekki hafin á laugardagskvöld

Þegar ljóst var að drengurinn var strokinn að heiman var strax hringt í 112 og bakvakt barnaverndar. Þau létu Stuðla einnig vita. 

„Hálfátta um kvöldið vorum við ekkert búin að heyra, en svo frétti ég frá einstaklingi að það væri ekki einu sinni komin leitarbeiðni. Þannig að leit af honum var ekki byrjuð níu tímum síðar. Við hringdum aftur í 112 og þá kom bakvakt barnaverndar af fjöllum og sögðust ekki hafa neinar upplýsingar um að Vogur ætlaði að taka við honum. Samt hafði það komið fram í fréttum,“ segir móðirin.

Vísar hún til yfirlýsingar Ólafar Ástu Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu, um að starfsemi Stuðla myndi flytjast tímabundið yfir á Vog og að skjólstæðingar fengju þar inni. 

Var ekki tilbúinn til að koma heim

Móðirin segir fjölskylduna hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að reyna að finna drenginn. Þau hafi sjálf farið út að leita og reynt að ná í hann með ýmsum leiðum, en hann hefur lokað á öll samskipti við þau.

„Við erum búin að vera hérna titrandi í tvo sólarhringa að reyna að hringja út um allt til að fá einhverjar upplýsingar.“

Hún segir son sinn alls ekki hafa verið tilbúinn að koma heim, enda stóð til að hann yrði vistaður lengur á meðferðardeildinni.

„Þau hefðu þurft að finna eitthvað úrræði fyrir börnin strax. Það er ekki hægt að senda þau heim án nokkurs undurbúnings. Það verður að vera eitthvað plan B ef eitthvað kemur upp á.“

Hún segist gera sér grein fyrir því að allir séu að reyna að gera sitt besta en því miður sé það bara ekki nóg. „Það eru komnir tveir sólarhringar, hann er 15 ára.“

mbl.is/Ólafur Árdal

Segir soninn ekki hafa fengið áfallahjálp

17 ára drengur lést í brunanum og starfsmaður var fluttur slasaður á bráðamóttöku. Greint hefur verið frá því að áfallateymi hafi verið kallað út strax í kjölfar brunans og að hlúð hafi verið bæði að starfsfólki og skjólstæðingum. Móðirin segir hins vegar að syni hennar hafi ekki boðist slík aðstoð.

„Þegar sonur minn kom heim sagðist hann hafa séð drenginn borinn út á börum og að hann héldi að hann væri dáinn,“ segir hún.

„Börnin sem voru keyrð heim fóru heim með þetta í bakpokanum, ekki fengu þau neina áfallahjálp. Þeim var bara bara skutlað heim eftir að hafa horft upp á þetta.“

Segir neyslu í gangi á Stuðlum

Líkt og áður sagði glímir drengurinn sem strauk við fíknivanda og hafði verið vistaður á Stuðlum frá því í ágúst. Móðirin segir starfsfólkið hafa verið algjörlega frábært og hafi reynst syni hennar vel, en það sé ljóst að eitthvað vanti upp á.

„Börn geta strokið liggur við þegar þeim sýnist og það er neysla í gangi þarna. Þau geta náð í það sem þau vilja þegar þau koma heim og svo koma þau með það í vasanum til baka.“

Hún segir það fáránlegt að ekki megi leita á börnum á Stuðlum, til dæmis þegar þau koma til baka úr helgarleyfi, en að svo megi leita á börnum á skólaböllum. Heimild er til yfirborðsleitar á Stuðlum, en ekki líkamsleitar og er því aðeins leitað í fórum barnanna. „Börn geta því bæði verið með dóp á sér, eldfæri eða annað. Þetta er alveg fáránlegt.“

mbl.is/Ólafur Árdal

Öll börnin eigi að fá sálfræðiaðstoð

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir að starfsfólkið, sem þekkir börnin, hafi metið hverjir gátu farið heim og að það hafi verið gert í samráði við barnavernd, en að hún skilji gagnrýni foreldra mætavel. 

„Þau börn voru send heim sem unnt var að senda heim. Heimili foreldra eru oftast nær öruggt skjól. Hvort eitthvað hafi verið fyrirséð eða ekki var erfitt að að segja til um á þeirri stundu og í þeim aðstæðum við vorum í,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.

„Þegar neyðarástand kemur upp þá þarf að grípa til neyðarráðstafana. Það er ekki hægt að geyma börn í strætó. En svo gerist eitthvað í kjölfarið, það er eitthvað sem gæti verið viðbúið eða eitthvað sem við áttum síður von á, en það er eins og gengur með börn í viðkvæmri stöðu.“

Hvað áfallahjálp varðar segir Ólöf að öllum börnum hafi boðist sálfræðiaðstoð og að farið hafi verið heim til þeirra barna sem keyrð voru heim. „Það var haft samband við alla foreldra og öll börnin. Þá fá allir áfallahjálp og það á allt að vera frágengið.“

Uppfært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert