„Margt mjög áhugavert og öflugt fólk“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Arnþór

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að margt mjög áhugavert og öflugt fólk sé að stíga inn í pólitík.

Kosið verður til Alþingis laugardaginn 30. nóvember og á síðustu dögum hafa fjölmörg ný andlit, þekkt og óþekkt, boðað komu sína og tekið sæti á listum stjórnmálaflokka.

Í kjördæmi Sigurðar Inga á Suðurlandi verður Halla Hrund Logadóttir í oddvitasætinu en Sigurður ákvað að gefa eftir fyrsta sætið og skipar annað sæti á listanum.

Spennandi tímar fram undan

„Það er talsverður gangur í því að þekkt fólk sé að taka sæti á listum hinna ýmsu flokka og það er varla hægt að ná utan um það. Þetta eru sérstakar aðstæður og margt mjög áhugavert og öflugt fólk sem er að stíga inn í pólitík,“ segir Sigurður Ingi.

„Maður veltir því fyrir sér hvort það sé vegna þessara aðstæðna þar sem fólk þarf ekki að fara í gegnum hefðbundið ferli stjórnmálaflokkanna með prófkjörum og öðru slíku.“

Hann segir spennandi tíma fram undan. Sjálfur sé hann klár í slaginn.

„Ég vildi gjarnan eiga meiri tíma að fara út á meðal fólks og ræða við það um allt það sem við erum búin að gera, hvernig við sjáum fyrir okkur að samfélagið geti þróast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert