Samfylkingin hyggst hækka tekjuskatt

Samfylkingin hefur boðað metnaðarfulla áætlun við uppbyggingu innviða á Íslandi. Til þess hyggst hún auka tekjur ríkissjóðs sem stundum hefur verið kallað að „auka aðhaldið á tekjuhlið“ ríkissjóðs.

Guðmundur Ari Sigurjónsson mun að öllu óbreyttu verma annað sætið á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar en hann hefur lengi starfað á vettvangi bæjarmálanna í heimabæ sínum Seltjarnarnesi.

20 milljarðar í auðlindirnar

Í viðtali í Spursmálum segir hann að Samfylkingin hyggist sækja allt að 20 milljarða króna í formi nýrra auðlindagjalda á komandi árum en að þá verði einnig kannaðar leiðir til þess að hækka tekjuskatt. Slíkar tillögur hefur hann borið margoft upp á vettvangi bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi.

Orðaskiptin um þessar hugmyndir Samfylkingarinnar og Guðmundar má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig eru þau rakin í textanum hér að neðan.

Guðmundur, um skattamálin hjá Samfylkingunni, þið viljið sækja 70 milljarða ef ég skil ykkur rétt, um það bil, á tekjuhliðinni. Viljið aukið aðhald þar. Hvert ætlið þið að sækja þetta?

„Hvert ætlum við að sækja þetta. Ég meina, það liggur fyrir að ef við ætlum að skapa sátt um að bæta innviði á Íslandi hvort sem það er heilbrigðiskerfi, skólakerfi, samgöngukerfi...“

Sótt í tekjuskattinn

Þetta er ekki svar við spurningunni...

„Þá þurfum við að sækja fyrir því tekjur.“

Ef við segjum 70 milljarðar, hvert ætlið þið að sækja þessar tekjur?

„Tekjurnar eru fyrst og fremst sóttar þar sem þenslan er í samfélaginu. Við höfum verið að leggja til auðlindagjöld, almenn auðlindagjöld á allar auðlindir til þess að skapa sátt um auðlindagreinar okkar.“

Vindurinn, vatnið, fiskurinn og fleira

Hvaða auðlindir eru það?

„Það eru allar auðlindir sem koma frá landinu og eru takmarkaðar og verðmæti. Við erum að tala um vind, við erum að tala um vatn, við erum að tala um fisk, sem dæmi og orkumannvirki.“

Hvað er hægt að taka mikinn skatt af því til þess að fylla upp í þessa holu?

„Það fer náttúrulega eftir því hvernig þú útfærir þetta. Og það sem við erum að leggja af stað með er tíu ára vegferð og við teljum að á tíu ára vegferð, bæði með aukinni verðmætasköpun, líka með því að tryggja með því að það verði til meiri verðmæti að þá erum við að horfa til þess að það séu 20 milljarðar sem hægt er að ná úr þessu.“

Ætlið þið að hækka tekjuskatt?

„Það eru ekki fyrstu skrefin okkar að hækka tekjuskatt okkar.“

Þurfum að borga uppbygginguna sjálf

Ég var ekki að spyrja hvort það væru fyrstu skrefin, ætlið þið að hækka tekjuskatt?

„Ég hef verið talsmaður þess í mínu sveitarfélagi þar sem við erum að sýsla með í rauninni tekjuskatt, útsvar og talað fyrir því að ef við viljum bæta þessa grunninnviði okkar þá þurfum við að vera meðvituð um það að við verðum að gera það saman og við sem saman byggjum upp þetta samfélag og vissulega er alltaf hægt að sækja eitthvað á breiðustu bökin en þú byggir ekki upp sterkt velferðarsamfélag og öfluga innviði, öfluga heilbrigðisþjónustu án þess að við greiðum fyrir það saman. Þannig að hvort sem það verði einhverjar lítillegar hækkanir á tekjuskatti þegar fram líða stundir þá er ekki búið að útfæra það nánar.“

En.....

„En ég get svarað því játandi varðandi það sem ég þekki í mínu sveitarfélagi að til dæmis þar og þar hef ég í nokkur ár árlega lagt það til að hækka útsvarið til að veita þá þjónustu sem íbúar kalla eftir og ég sé engan mun á stjórnun landsmálanna og varðandi það.“

Guðmundur Ari Sigurjónsson verður í forystusveit Samfylkingarinnar fyrir þessar kosningar.
Guðmundur Ari Sigurjónsson verður í forystusveit Samfylkingarinnar fyrir þessar kosningar. mbl.is

Eiga kjósendur rétt á að vita?

En er ekki eðlilegt að leiðtogar flokksins svari því hvaða skatta þeir ætli að hækka áður en þeir komast til valda. Eigum við kjósendur bara að vera í myrkri um það hvort það verði tekinn af okkur meiri peningur eða ekki?

„Við erum náttúrulega að tala um tíu ára vegferð þannig að núna erum við í kosningabaráttu um þessar kosningar...“

Þið getið teiknað upp þessa tíu ára vegferð fyrir okkur er það ekki? Við eigum eftir að kjósa ykkur aftur eftir tíu ár.

„Það væri óskandi en þá tökum við það samtal. En þetta byggir náttúrulega á því hvað hægt er að sækja í auðlindirnar, hvað er hægt að fá með aukinni verðmætasköpun, hvað er hægt að fá með því að hagræða í ríkisrekstri, það er gríðarlega mikil sóun í kerfinu í dag, sérstaklega þegar innviðir fara að grotna niður. Það kallar á aukið viðhald, aukinn kostnað. Það er þrisvar sinnum dýrara fyrir þá eldri borgara sem þurfa að dúsa á göngum bráðamóttökunnar og komast ekki inn á hjúkrunarheimili. Þannig að þarna er dæmi um það hvernig með því að byggja upp innviðina okkar getum við náð sparnaði í rekstri ríkisins og þess vegna er þetta flókin jafna. Auðvitað er þægilegt og bara skiljanlegt að spyrjandi vilji fá skýr svör en veruleikinn er bara aðeins flóknari en þetta en fyrst og fremst ætlum við að ráðast í innviðauppbyggingu þar sem á að verða til meiri verðmætasköpun þannig að kakan mun stækka. Einnig að ná fram auknum sparnaði þannig að...“

Ríkið er rekið með 41 milljarðs tapi, þið getið ekki ráðist í innviðauppbyggingu fyrr en þið aflið meiri tekna.

„Og þá eru auðlindagjöldin fyrsta skrefið.“

Viðtalið við Guðmund Ara má sjá í spilaranum hér að neðan. Hann er gestur þáttarins ásamt Snorra Mássyni sem mun að öllu óbreyttu stýra för í öðru Reykjavíkurkjördæmanna fyrir hönd Miðflokksins í komandi kosningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert