Bræður dóu úr ofskömmtun sama dag

Bræðurnir Jón Kjartan og Sindri Geir.
Bræðurnir Jón Kjartan og Sindri Geir. Ljósmynd/Aðsend

Bræðurnir Jón Kjartan Einarsson og Sindri Geir Ásgeirsson létust úr ofskömmtun fíkniefna með tólf klukkustunda millibili. Móðir þeirra lést úr sama sjúkdómi fyrir fjórum árum.

Þessu lýsir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, í aðsendri grein á Vísi þar sem hann vekur athygli á því úrræðaleysi og mikla vanmati sem sé í samfélaginu á hryllilegum afleiðingum fíknisjúkdómsins.

Segir Sigmar föður bræðranna, Ásgeir Gíslason, hafa komið að máli við sig fyrir nokkrum vikum til að biðja hann um að segja sögu sona sinna. Bræðurnir bjuggu saman í Kópavogi en annar þeirra var á biðlista til að komast í meðferð.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Létust í sömu íbúð

„Ásgeir bað mig um að koma á framfæri því sem gerðist í hans fjölskyldu í ágúst. Hann treystir sér ekki til þess sjálfur en vill rjúfa þá þögn sem oft ríkir um það góða fólk sem fellur frá vegna veikinda,“ skrifar Sigmar. 

Þann 9. ágúst barst fjölskyldunni sú harmafregn að Jón Kjartan, sem var fæddur 1990, hefði fallið frá í íbúð þeirra bræðra. Hann hafði átt við vímuefnavanda að stríða og andlátið má rekja til ofskömmtunar efna. Bróðir hans Sindri Geir var fæddur 1997 og átti einnig við vímuefnavanda að stríða.

„Eftir að lögregla og heilbrigðisstarfsmenn höfðu yfirgefið íbúðina eftir andlátið vildi Sindri dvelja þar áfram, þrátt fyrir að fjölskyldu hans hafi þótt heppilegra að hann gerði það ekki. Örfáum stundum síðar var fjölskylduna farið að undra að ekki náðist samband við Sindra Geir. Lögregla fór á vettvang og kom að Sindra látnum 12 klukkustundum eftir andlát bróður hans.“

Ekki sá fyrsti sem deyr á biðlista

Skrifar Sigmar að bræðurnir hafi báðir reynt að sækja bata á árinu. Jón Kjartan hafi farið í meðferð rétt fyrir síðustu áramót en að vegna plássleysis hafi verið bið eftir áframhaldandi meðferð sem varð til þess að hann hélt ekki strax áfram meðferðinni.

Sindri Geir hafði nokkrum mánuðum fyrir andlátið óskað eftir því að komast í meðferð en fór á átta mánaða biðlista.

„Hann er því miður ekki sá fyrsti sem deyr á biðlista. Bræðurnir hvíla í sama leiði og móðir þeirra sem lést úr fíknisjúkdómnum fyrir fjórum árum.“

Móðir bræðranna lést einnig úr fíknisjúkdómi fyrir fjórum árum.
Móðir bræðranna lést einnig úr fíknisjúkdómi fyrir fjórum árum. Ljósmynd/Aðsend

Vanmetinn sjúkdómur

Tekur Sigmar fram að aðstandendur bræðranna vilji ekki benda fingri á einstaka meðferðastöðvar. Engum sé að kenna um grimman sjúkdóm sem sé erfiður viðureignar. 

„Þeim finnst hins vegar mikilvægt að andlát Jóns Kjartans og Sindra Geirs verði til þess að fólk og ráðamenn opni augun fyrir því hversu alvarleg staðan er. Þau vilja einfaldlega að samfélagið geri betur til að styðja við alla þá sem glíma við fíknivanda. Þau vilja bjarga mannslífum,“ skrifar Sigmar.

Hann segir vanmat samfélagsins á sjúkdómnum meinsemd í íslensku samfélagi sem heltaki ekki aðeins líf þeirra sem af honum þjáist heldur einnig fjölskyldna þeirra.

Breyta vilja í verk

„Þetta hef ég talað ítrekað um á síðustu árum. Og mun gera áfram. Ég veit sem er að vilji allra stjórnmálamanna er að gera betur í þessum málaflokki. Við þurfum bara að breyta þessum vilja í verk,“ segir Sigmar. 

Hann bendir á mikilvægi þess að byggja upp öflugri og fjölbreyttari meðferðarúrræði, ásamt öflugum forvörnum við fíknisjúkdómum. 

„Veltum því fyrir okkur eitt andartak hvernig umræðan í samfélaginu væri ef tveir bræður hefðu látist með fárra klukkustunda millibili í umferðarslysi á sömu gatnamótunum. Við værum búin að teikna upp öflugt viðbragð og þungavinnuvélar mættar á svæðið. Eðlilega.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert