E.coli-smit á leikskóla í Hveragerði

Hveragerði.
Hveragerði. mbl.is/Sigurður Bogi

Tveimur deildum af sex í leikskólanum Óskalandi í Hveragerði verður lokað fyrri partinn á morgun vegna E.coli smits. Leikskólastjórinn staðfestir þetta við mbl.is en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá. 

Aðeins eitt barn er smitað en barnið var á leikskólanum Mánagarði áður en það kom í aðlögun á Óskaland á mánudag.

„Þessi drengur var búinn að vera í tvo daga hjá okkur eftir að hann kom frá Mánagarði, þar sem smitið stóra er,“ segir Gunnvör Kolbeinsdóttir, leikskólastjóri á Óskalandi, í samtali við mbl.is.

„Það eru eiginlega engar líkur á að einhver annar hafi smitast.“

Segir hún að drengurinn hafi að mestu leyti verið með móður sinni í aðlöguninni og að sáralitlar líkur séu á öðrum smitum.

Deildirnar verða sótthreinsaðar

Þrif hófust á leikskólanum í dag eftir að sóttvarnalæknir hafði samband. Verða deildirnar tvær sótthreinsaðar.

„Það verður lokað í fyrramálið og vonandi getum við hleypt öllum inn um hádegið.“

Segir Gunnvör að eftir samtöl við sóttvarnarlækni í dag séu starfsmenn leikskólans vongóðir um að engin önnur smit muni koma upp.

„Af því að uppruninn er ekki hér.“

Foreldrar hafa þó verið beðnir um að fylgjast með börnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka