Jakob Bjarnar biður Bjarna afsökunar

Jakob kveðst ekki vera með horn í síðu Bjarna.
Jakob kveðst ekki vera með horn í síðu Bjarna. Samsett mynd

Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísi, biður Bjarna Benediktsson og lesendur miðilsins afsökunar á frétt sem hann skrifaði þar sem því var ranglega haldið fram að Bjarni hefði varað „við of mik­illi blönd­un kynþátta“ í hlaðvarpsþætti.

„Ég bið Bjarna og aðra velvirðingar á þessum leiðindamistökum,“ segir Jakob í samtali við mbl.is.

Bjarni mætti í hlaðvarpið Ein Pæl­ing þar sem út­lend­inga­mál­in báru á góma. Í kjöl­farið birt­ist frétt á Vísi und­ir fyr­ir­sögn­inni: „Var­ar við of mik­illi blönd­un kynþátta“.

Bjarni varaði aldrei við blöndun kynþátta og hef­ur Vís­ir nú leiðrétt frétt­ina. Bjarni lýsti áhyggjum af árekstrum ólíkra menningarheima.

„Alfarið við mig að sakast“

„Ég er greinilega bara búinn að vera að skrifa allt of mikið í dag því þessum tveimur hugtökum sló saman í kollinum á mér þegar ég var að byggja brú yfir í næstu setningu. Þetta er uppsuða úr hlaðvarpsþætti. Bjarni sagði þetta aldrei, þetta er alfarið við mig að sakast,“ segir Jakob.

Hann tekur fram að á engum tímapunkti hafi fréttin verið hugsuð til þess að finna höggstað á Bjarna. Jakob hafnar því alfarið að vera með horn í síðu Bjarna.

Hann áætlar að fréttin hafi verið leiðrétt um 5-10 mínútum eftir að hún fór í loftið. Hann ítrekar afsökunarbeiðni sína.

Hér má sjá skjáskot af því hvernig fréttin leit út …
Hér má sjá skjáskot af því hvernig fréttin leit út áður en hún var leiðrétt. Skjáskot

Kveðst ekki vera með horn í síðu Bjarna

Hann tekur fram að á engum tímapunkti hafi fréttin verið hugsuð til þess að finna höggstað á Bjarna.

„Þegar Bjarni og fleiri eru að væna mig um að hafa horn í hans síðu, þá er það algjörlega úr lausu lofti gripið. Ég hef bara ekkert á móti Bjarna. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér finnst hann meira að segja frekar vanmetinn stjórnmálamaður ef eitthvað er,“ segir Jakob.

Nýjum botni náð

Bjarni tjáði sig um fréttina á Facebook þar sem hann sagði nýjum botni náð.

„Ég hef mátt reyna ýmislegt þegar kemur að fjölmiðlaumfjöllun í gegnum tíðina, en hér var nýjum botni náð. Vísir hefur nú beðist afsökunar,“ skrifaði Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka