Móttökuskólar „betri leið til inngildingar“

„En það er mjög margt annað sem þarf [líka] að …
„En það er mjög margt annað sem þarf [líka] að gera. Eitt af því mikilvægasta er að koma á samræmdu námsmati, þar sem við getum haft meiri, örari og betri mælingar en bara PISA.“ mbl.is/Hari

Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og mennta­mála­nefndar Alþingis, telur móttökuskóla geta verið betri leið til inngildingar fyrir börn af erlendum uppruna en núverandi fyrirkomulag.

Hún viðurkennir þó að skólarnir yrðu engin „töfralausn“ til að bæta menntakerfið, heldur sé brýnasta verkefnið þar að koma á fót samræmdu námsmati. En móttökuskólar gætu þó orðið mikilvæg leið til að bæta menntakerfið og þjónusta erlend börn betur.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skrifaði skoðanagrein í Morgunblaðið í gær þar sem hún viðraði einnig hugmynd af slíkri stofnun.

Mót­töku­skólar væru fyrsta skref barna á flótta að fóta sig í ís­lensku sam­fé­lagi áður en þau færu í almenna grunnskóla. Þar yrði lögð áhersla á sam­ræmda tungu­mála­kennslu og hæfnismat.

Tekið aftur upp í Danmörku

Bryndís, samherji Áslaugar í Sjálfstæðisflokknum, lagði einmitt fram tillögu á vorþingi um að fela menntamálaráðherra að koma á fót slíkri stofnun.

„Ég hef rætt við fjölda kennara, líka kennara móttökudeilda og móttökuskóla, bæði á Íslandi og í Danmörku,“ segir Bryndís í samtali við mbl.is en Danmörk hefur nýlega aftur tekið upp slíkt námsfyrirkomulag eftir að stríðið í Úkraínu hófst.

Móttökuskólar þekktust á Norðurlöndunum á árum áður, en Bryndís segir að bakslag hafi komið í þá umræðu er leið á árin – fólk hafi talið slíka skóla einangra börnin svo að þau næðu ekki að tengjast samfélaginu.

„En ég veit að mörg Norðurlöndin hafa farið að taka þetta upp aftur. Sérstaklega eftir að Úkraínustríðið braust út. Þá var þetta gert til að mynda í Danmörku, þar sem ég ræddi við kennara í slíku setri eða slíkum skóla.“

Börn innflytjenda þegar einangruð í menntakerfinu

Bryndís telur nefnilega að börn innflytjenda séu oft á tíðum þegar einangruð í hefðbundnu námskerfi hér á landi og segir að móttökuskólar gætu bætt stöðu þeirra barna.

„Ég er algjörlega sannfærð um það að börn sem koma inn í hefðbundinn bekk, með enga íslenskukunnáttu – og við eigum auðvitað erfitt að greina og vita nákvæmlega hver er þeirri menntalegi bakgrunnur […] og þegar ofan á það leggjast alls konar áföll þegar við horfum á þennan hrylling í heiminum – þá er þetta barn einangrað í bekknum,“ segir Bryndís.

„Það er engin leið til að ætlast til þess að venjulegur bekkjarkennari hafi bolmagn til að sinna þessu barni og hvað þá sinna öllum hinum börnunum í bekknum þegar svona aðili kemur inn.“

Samt engin „töfralausn“

Samkvæmt þingsályktunartillögunni sem var lögð aftur fyrir á haustþingi væri ráðherra falið að koma slíkri stofnun á lagnirnar í samstarfi við fagstéttir.

„Það geta verið nokkrir mögulegir móttökuskólar á höfuðborgarsvæðinu en svo sé ég fyrir mér eitt þekkingarsetur þar sem hægt er að aðstoða skóla úti á landi sem eru að taka á móti erlendum börnum.“

En brátt koma kosningar þann 30. nóvember. Hvað verður þá um ályktunina?

„Því miður er það þannig með þingsályktunartillögur eins og önnur frumvörp að þau munu bara falla niður þar til þau eru tekin upp aftur en ég vona svo sannarlega að þetta hafi kveikt umræðu,“ segir hún og bætir við að þörf sé á „raunverulegum lausnum“ í menntakerfinu, einkum í grunnskólum.

„Ég er ekki að segja að þetta sé töfralausn sem lagi allt. En ég held að þetta sé ofboðslega mikilvægur hluti af lausninni.“

„Betri leið til inngildingar“ 

Bryndís nefnir einnig að þar sem börn komi af mismunandi uppruna þurfi þau ekki öll að stoppa í móttökuskóla jafn lengi. „Í sumum tilfellum getur verið að barn þurfi bara að stoppa í móttökuskóla í eina til tvær vikur,“ segir Bryndís.

Þá gæti þurft fara í alls konar greiningar á árangri út frá þroska. „Þá er það mikil hjálp fyrir bekkjarkennarann að fá nemandann inn í bekkinn sinn og með upplýsingar um stöðu þess barns. Í stað þess að hver og einn bekkjarskóli sé svolítið að finna upp hjólið, vinna með greiningar og vinna með það hvernig megi nálgast börnin,“ segir hún.

„Ég held að þetta sé einmitt betri leið til inngildingar eða aðlögunar að Íslensku samfélagi en að henda börnum inn í íslenskan bekkjarskóla algjörlega mállaus og án nokkurs undirbúnings.“

Hvað aldursbil varðar kveðst Bryndís helst líta til grunnskólaaldurs en telur ástæðu til þess að horfa „bæði upp og niður í þessum efnum“. Þá vill hún meina að ályktunin sé í samræmi við aðgerðaráætlunar stjórnvalda vegna stöðu íslenskunnar.

Muni auðvitað kosta, en værum samt að spara

En þetta hlýtur að kosta eitthvað, ekki satt?

„Þetta mun auðvitað kosta en ég er sannfærð um það að þetta kosti minna en það sem við erum að gera í dag,“ segir Bryndís.

„Við erum með þessi börn inni í grunnskólakerfinu okkar í dag og það kostar að þjónusta þau nógu vel. Við sjáum það til að mynda í PISA, þar sem við sjáum að innflytjendum á Íslandi líður verr í skólanum heldur en innflytjendum í hinum Norðurlöndunum.“

Örsök þess telur hún vera að börnin séu of einangruð og hafi ekki fengið nægilegan undirbúning fyrir íslenskt samfélag. „Þarna er ég sannfærð um að við getum þjónustað börnin betur og gert það með hagkvæmari hætti.“

Það sé eitt brýnasta verkefni stjórnvalda að þjónusta börn af erlendum uppruna vel þannig að þau fái sömu tækifæri og börn af íslenskum uppruna til framtíðar litið.

„Vegna þess að ég held að vandamálið sem við erum að sjá í kringum okkur, sérstaklega í Svíþjóð, sé að börn innflytjenda hafa ekki fengið þessi tækifæri sem þau þurfa að hafa til að vera hluti af samfélaginu.“

Þurfi samræmt námsmat

Hvaða áhrif heldurðu að þetta gæti haft á menntakerfið allt?

„Þetta mun hafa þau áhrif að þetta minnki álag á kennurum og aðstoðar okkur við að veita þessum börnum, þ.e.a.s. börnum innflytjenda betri menntun, en ekki síður gefur það aukið svigrúm fyrir kennara að sinna öðrum börnum í bekknum betur,“ svara þingmaðurinn.

Hún bendir á að íslendingar ráðstafi meira skattfé í menntkerfið í samanburði við önnur Norðurlönd en skili ekki sama árangri miðað við PISA-kannanir.

„En það er mjög margt annað sem þarf að gera. Eitt af því mikilvægasta er að koma á samræmdu námsmati, þar sem við getum haft meiri, örari og betri mælingar en bara PISA.“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert