Starfað í þágu fátæks fólks í 29 ár

Biðröð fyrir framan Fjölskylduhjálp Íslands.
Biðröð fyrir framan Fjölskylduhjálp Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölskylduhjálp Íslands afhendir 800 fjölskyldum matargjafir í hverri viku og eru sjálfboðaliðarnir flestir flóttamenn án atvinnuréttinda. Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins komu við í Fjölskylduhjálpinni í Iðufelli í vikunni og þá, eins og oft, var löng biðröð fyrir framan húsið.

Inni í húsinu tóku sjálfboðaliðar á móti fólkinu, skráðu það og aðstoðuðu við að fylla poka af matvöru. Afgreiðslan gekk hratt fyrir sig og vinnubrögðin fumlaus. Jákvæðni og hjálpsemi sjálfboðaliðanna vakti athygli og þakklæti þeirra sem þáðu.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, stofnandi og formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, hefur starfað í þágu fátæks fólks í 29 ár. Hún segist hafa kynnst því fyrst hvað mikil fátækt ríkti á Íslandi, þegar hún sá gamlar skólasystur sínar tannlausar í biðröð eftir mat og við það fann hún fyrir köllun að helga sig þessari starfsemi.

Ásgerður Jóna Flosadóttir.
Ásgerður Jóna Flosadóttir.

Kynslóð fram af kynslóð

„Það er talað um það í dag af hverju svona margir eru öryrkjar. Konur af minni kynslóð sem eignuðust börnin ungar, unnu lægst launuðu störfin, reyndu samt að koma yfir sig eigið húsnæði og náðu ekki endum saman um mánaðamót, urðu margar fórnarlömb fátæktar. Þetta byrjar þegar fólki líður illa, leitar til læknis og fær kvíðastillandi lyf sem hjálpa því að komast í gegnum daginn. Svo verður þróunin þannig að lyfjanotkunin eykst, fólk hættir á vinnumarkaði og endar sem öryrkjar,“ segir Ásgerður.

Margar hendur vinna létt verk og flestir sjálfboðaliðar eru flóttafólk …
Margar hendur vinna létt verk og flestir sjálfboðaliðar eru flóttafólk sem fær ekki aðra vinnu. mbl.is/Árni Sæberg

Hún segir að staðan í dag sé ennþá verri en hún var. Öryrkjar eigi ekki um auðugan garð að gresja og það megi ekkert klikka í þeirra heimilishaldi. Margir komist ekki af án þess að fá mataraðstoð og öryrkjar á leigumarkaði hafi það verst.

„Á þessu tímabili hef ég séð þetta ganga milli kynslóða og þeir sem koma af heimili þar sem ekkert er spáð í menntun lenda oft í fátæktargildru,“ segir Ásgerður.

Mikilvægir styrktaraðilar

Ásgerður segir að oft hafi þetta verið erfitt og hún velt því fyrir sér hvort hægt væri að halda áfram.

Beðið eftir afgreiðslu hjá Fjölskylduhjálp.
Beðið eftir afgreiðslu hjá Fjölskylduhjálp. mbl.is/Árni Sæberg

„Svo var það fyrir fjórum árum að hinn yndislegi Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri hringdi í mig að sínu frumkvæði og hann er búinn að vera mín hægri hönd í öll þessi ár og er enn að. Núna síðast sendi hann okkur 2,4 tonn af nýframleiddri vöru. Eitt árið sendi hann okkur vörur sem hefðu kostað 97 milljónir út úr búð, sem sýnir þann hlýhug sem hann ber til Fjölskylduhjálparinnar.“

Fyrir tveimur árum stofnuðu þau Matarbankann þar sem tekið er á móti vörum sem komnar eru að síðasta söludegi en eru í góðu lagi.

„Þetta fyrirkomulag er gott fyrir alla aðila. Fyrirtækin spara sér urðunarkostnað á matvælum og við fáum vörur sem nýtast okkar fólki. Í fyrra tókum við 400 bretti af ferskvöru og þurrvöru og það í raun og veru bjargaði starfinu það árið, til viðbótar við það sem Þórólfur lagði okkur til. Það eru margir birgjar sem leggja okkur lið og fleiri sem bætast í hópinn.“

Starfsmenn setja vörur í pakka til skjólstæðinga Fjölskylduhjálpar.
Starfsmenn setja vörur í pakka til skjólstæðinga Fjölskylduhjálpar. mbl.is/Árni Sæberg

Kertasmiðja og nytjamarkaður

Samhliða Fjölskylduhjálpinni reka þau Nytjamarkaðinn og með því tekst þeim að ná inn tekjum fyrir húsaleigu, rafmagni og hita, en fastakostnaður starfseminnar er 3 milljónir á mánuði og af því er húsaleigan 1,5 milljónir. Kertaframleiðslan er hluti af rekstri Nytjamarkaðarins og upphafið að þeirri starfsemi er hugmynd um að nýta mör sem fellur til í sláturtíð.

„Mér finnst vanta mikið upp á meðvitund yfirvalda. Við fáum nánast aldrei styrki frá Reykjavíkurborg, en samt vísar félagsþjónustan stöðugt á okkur. Við fáum 800 þúsund króna ríkisstyrk á ári sem við þurfum að skipta niður á Reykjavík og Reykjanes en Anna Valdís Jónsdóttir varaformaður heldur utan um starfsemina þar. Samt til þess að halda öllu til haga þá styrkti Reykjavíkurborg Matarbankann um eina milljón við stofnun hans, en það hefur enginn fulltrúi borgarinnar komið til að taka út starfsemina.“

Starfsfólk með vörur sem er úthlutað.
Starfsfólk með vörur sem er úthlutað. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert