Stefna að atkvæðagreiðslu um verkfall

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Fundur á milli samninganefndar ríkisins og Læknafélags Íslands hófst nú klukkan 15:00 þar sem grunnlaun nýútskrifaðra lækna eru til umræðu. Formaður læknafélagsins, Steinunn Þórðardóttir, segir að stefnt sé að atkvæðagreiðslu innan félagsins öðru hvorum megin við helgi og ákvarðast þá næstu skref í kjarabaráttu þeirra.

„Ef atkvæðagreiðsla myndi hefjast öðru hvoru megin við helgi eins og stefnt er að, og standa þá yfir í næstu viku, og ef við fáum þá verkfallsheimild í kjölfarið að þá myndu aðgerðir í fyrsta lagi hefjast 18. nóvember,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.

Ríkisútvarpið hafði greint frá fyrr í dag að læknar stefndu á verkfall 18. nóvember ef samningar við ríkið myndu ekki nást en Steinunn segir það hins vegar ekki meitlað í stein enn þá.

Það er ekki búið að staðfesta það 100%?

„Nei, og eins og ég segi þá erum við ekki komin með verkfallsheimildina. Við erum bara að vinna að því að útbúa atkvæðagreiðslu sem ég vona að fari af stað öðru hvoru megin við helgina. En við getum gert það fyrr en við erum búin að fá heimild.“

Vonast eftir virku samtali áfram 

Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar, sem mun hefjast á morgun eða mánudag að sögn Steinunnar, kemur í ljós hvort Læknafélagið fái verkfallsheimild frá félagsmönnum.

„Það er staðan. Á meðan höfum við vonir um að viðræður haldi áfram af fullum krafti því að við viljum auðvitað síður enda í verkfalli. Það er ekki eitthvað sem við erum að sækjast sérstaklega eftir.

Þannig að við vonum að það verði virkt samtal áfram og mér sýnist báðir aðilar alveg viljugir til þess.“  

Grunnlaun, stytting vinnuvikunnar og gæsluvaktir

Hún segir stóru málin í kjarabaráttunni vera grunnlaun nýútskrifaðra lækna, styttingu vinnuvikunnar og svokallaðar gæsluvaktir þar sem læknar starfa heima á bakvaktarkaupi.

„Þetta er rúmur tvö þúsund kall á tímann fram að miðnætti og þrjú þúsund kall eftir miðnætti, sem sagt á nóttunni,“ segir Steinunn.

„Þetta er hugsað sem biðkaup. Þú ert ekki að vinna á þessu kaupi, heldur bara að vera til taks. En út af tækniþróun í samfélaginu þá erum við að vinna á þessu kaupi. Við erum með síma sem við svörum í og veitum ráðgjöf. Við erum með tölvur heima þar sem við getum farið inn í sjúkraskrárkerfi og unnið heilmikla vinnu og fyrir þetta fæst ekkert greitt og enginn hvíldartími og ekkert,“ bætir hún við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka