Umboðsmaður gerir athugasemdir við svar ráðherra

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður barna hefur aftur sent bréf til barna- og menntamálaráðherra, í tengslum við námsúrræði á vegum Klettabæjar fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri, þar sem fimm mánaða gamalli fyrirspurn umboðsmanns hefur enn ekki verið svarað.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, svarar fyrirspurnum seint og illa.

Þann 15. maí óskaði umboðsmaður barna eftir nánari upplýsingum um það fyrirkomulag, fjölda barna sem sækja úrræðið og hversu lengi þau hafi notið þess.

Umboðsmaður óskaði líka eftir upplýsingum um hvernig slíkt úrræði, sem rekið er af einkaaðila, uppfylli að mati ráðuneytisins þær skyldur sem fram koma í lögum um framhaldsskóla.

Þurfti að ítreka erindið

Ítreka þurfti erindið 24. september þar sem engin svör bárust frá Ásmundi en loksins barst svar þann 9. október. Í svarinu kom þó hvergi fram hversu mörg börn sækja úrræðið. Umboðsmaður barna gerir athugasemdir við það.

„Að lokum gerir umboðsmaður barna athugasemdir við að fjöldi nemenda í námsúrræði Klettabæjar á haustönn 2024 liggi ekki fyrir þar sem svar ráðuneytisins er dagsett 9. október sl. Umboðsmaður barna óskar eftir að ráðuneytið upplýsi umboðsmann um ástæður þess að fjöldi nemenda á haustönn 2024 liggi ekki fyrir,“ segir í bréfi umboðsmanns.

Í svari ráðuneytisins kom fram að úrræði Klettabæjar sé ekki með viðurkenningu sem framhaldsskóli.

Því hafi verið ákveðið að tengja framhaldsskóla sem faglegan bakhjarl við Klettabæ og ráðuneytið fékk Framhaldsskólann Í Garðabæ (FG) til að taka það verkefni að sér.

Óskar eftir nánari upplýsingum

Umboðsmaður óskar eftir mati ráðuneytisins á því hvort að námsúrræði Klettabæjar uppfylli þær kröfur sem eru gerðar til framhaldsskóla.

Einnig er óskað eftir upplýsingum um það hvort ráðuneytið telji að stjórnvöld séu að uppfylla fræðsluskyldu sína gagnvart börnum sem sækja námsúrræðið hjá Klettabæ á framhaldsskólastigi.

Ekki í fyrsta sinn sem svör berast seint

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svör frá ráðuneytinu berast seint og illa. 

Sem dæmi má nefna að í september vakti umboðsmaður athygli á því að sex mánuðir væru liðnir án svara frá ráðuneytinu við fyrirspurn umboðsmanns um hvernig ráðherra ætlaði að bregðast við löngum biðtíma barna eftir margvíslegri þjónustu.

Umboðsmaður sendi ráðherr­an­um annað bréf þann 23. júlí, en það varðaði óljós­ar áætlan­ir hans um nýtt náms­mat í grunn­skól­um lands­ins og inn­leiðingu þess. Því bréfi svaraði ráðherr­ann á síðasta degi fjög­urra vikna svar­frests.

Töldu svör ráðherr­ans um eina blaðsíðu og báru þess nokk­ur merki að hafa verið unn­in í flýti, einkum þegar litið var til frests­ins sem gef­inn var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert