Birta Hannedóttir
Jakob Frímann er genginn til liðs við Miðflokkinn, en hann sagði sig nýverið úr Flokki fólksins.
Vísir greindi fyrst frá.
Jakob skipaði oddvitasæti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum en Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins, er nýr oddviti flokksins í kjördæminu.
Í samtali við mbl.is segir Jakob að ákvörðunin hafi verið tekin í gær. Hann hafi heillast af stefnumálum flokksins og þá sérstaklega stefnu hans í að leiðrétta kjör láglaunafólks og almennri skynsemishyggju.
Aðspurður segist Jakob ekki hafa skilið við Flokk fólksins í neinum leiðindum og óskar flokknum alls hins besta í komandi kosningum.
„Ég lokaði kurteisilega á eftir mér og óska þeim alls hins besta og þakka þeim fyrir mig, pent.“
Þá gat hann ekki svarað því beint hvort hann myndi taka sæti á lista flokksins í komandi alþingiskosningum og segir það koma í ljós á næstu dögum.
Munt þú taka sæti á lista flokksins í komandi kosningum?
„Það kemur bara í ljós.“