Landsréttur hefur mildað dóm yfir David Gabriel S. Glascorssyni og Helga Þór Baldurssyni í hnífstunguárásarmáli tengdu skemmtistaðnum Bankastræti club.
Var David Gabriel upphaflega dæmdur í tólf mánaða fangelsi í héraðsdóm en hefur Landsréttur nú mildað dóm hans niður í átta mánuði. Þá hefur dómur Helga Þórs verið mildaður úr átta mánuðum niður í fjóra mánuði.
Málið snýst um stunguárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í nóvember árið 2022. Ruddust þar 25 grímuklæddir menn inn á skemmtistaðinn. Ellefu þeirra veittust að þremur mönnum sem voru á neðri hæð skemmtistaðarins.
Einn mannanna, Alexander Máni Björnsson, var dæmdur fyrir að hafa stungið tvo mannanna með hníf, en sýknað var fyrir þriðju stunguna.
Tíu menn voru jafnframt dæmdir fyrir að veitast að þremenningunum með hnefahöggum og spörkum. Þeir fjórtán sem eftir voru voru fundnir sekir um hlutdeild í árásinni, en þeir ruddust inn á skemmtistaðinn og voru inni í húsnæðinu á meðan á árásinni stóð og voru þannig ógnun og veittu árásarmönnunum liðsinni í verki.
Átta sakborningar í málinu áfrýjuðu dómi héraðsdóms frá í nóvember í fyrra.
Í málinu voru upphaflega 25 manns ákærðir og voru þeir allir dæmdir í héraði fyrir árásina á skemmtistaðnum Bankastræti club. Þar af hlaut Alexander Máni þyngsta dóminn, eða sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps.
Var hann dæmdur fyrir að hafa veist að tveimur mönnum með stunguárás á skemmtistaðnum. Hann var hins vegar sýknaður af ásökunum í einni stunguárásinni, en fyrsta árásin þótti ekki sönnuð.
Aðrir fengu vægari dóma, en fjórir þeirra skera sig þó úr og fengu fjórir sakborninga 4 til 12 mánaða dóma fyrir sinn þátt í málinu. Tveir þeirra áfrýjuðu til Landsréttar, þeir David Gabriel S. Glascorsson sem halut 12 mánuði og Helgi Þór Baldursson sem hlaut 8 mánuði.
Aðrir þeirra sem áfrýjuðu fengu 30 daga fangelsi, eða voru sakfelldir án þess að vera gerð refsing.
Málið var afar sérstakt fyrir þær sakir að 25 sakborningar voru í málinu og fóru réttarhöld fram í Gullhömrum. Þá breytti Alexander Máni framburði sínum og dró játningu til baka í tveimur stunguárásarmálanna af þremur.
Alexander áfrýjaði fyrst dómi sínum í desember í fyrra, en dró áfrýjunina til baka í ágúst. Alexander vildi þó áfram málsvarnarlaun sem hann var dæmdur til að greiða yrðu endurskoðuð, en hann hafði verið dæmdur til að greiða 7,8 milljónir. Ríkissaksóknari afturkallaði hins vegar áfrýjunina að fullu og sagði ekki lagaskilyrði fyrir að áfrýja aðeins kröfu um endurskoðun á málsvarnarlaunum. Bæði Landsréttur og Hæstiréttur féllust á þau rök og stendur því dómur yfir Alexander.
Samtals voru allir sakfelldu í málinu dæmdir til að greiða um 123 milljónir í málsvarnarlaun í málinu, eða um 4,9 milljónir að meðaltali.