Lögreglumenn sem komu að rannsókn Sólheimajökulsmálsins báru vitni fyrir dómi í dag, á fjórða degi aðalmeðferðar málsins. Ljóst er að eftirlit lögreglu með meintum glæpahópi stóð yfir í marga mánuði og var umfangsmikið. Sérstök stjórnstöð var sett upp í tengslum við rannsóknina.
Sakborningarnir 15 eru grunaðir um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Þrír hafa þegar játað sök.
Gögn málsins eru um 2.500 blaðsíður, þ.m.t. eru ýmsar skýrslur sem lögreglan ritaði. Þær voru bornar undir lögreglumennina sem báru vitni og varpað upp á skjá fyrir dómþing.
Í gögnunum mátti meðal annars sjá samskipti á milli tveggja manna sem lögregla telur hafa verið hægri hendur Jóns Inga Sveinssonar, höfuðpaurs hópsins.
Þar tala þeir um að Jón Ingi eigi þrjár eða fjórar kærustur, en ein þeirra bjó í Dóminíska lýðveldinu. Jón Ingi var staddur þar í landi í janúar á þessu ári. Þá hafði annar þeirra áhyggjur af neyslumynstri Jóns Inga.
Lögreglumaður sem stýrði rannsókninni sagði að eftirlit með hópnum hefði byrjað í október árið 2023 og lokið með aðgerðum lögreglu í apríl.
Hann lýsti því fyrir dóminum að eftirlitið hefði verið „ansi mikið“.
Í málinu liggur fyrir fjöldi hljóðritana á samtölum sakborninganna. Annar lögreglumaður sem sá um hljóðritanirnar sagði að í málsgögnum væri einungis brot af þeim gögnum sem lögreglan sankaði að sér.
Lögreglumaðurinn sem stýrði rannsókninni sagði að talsvert væri um samtöl sem snertu á lífi fólks og ættu ekki heima í gögnum sakamáls.
Lögreglumennirnir voru talsvert spurðir af verjendum hvernig þeir gætu fullyrt hverjir áttu í samtölunum sem eru í gögnum málsins.
Jón Ingi hefur meðal annars harðlega mótmælt að hafa tekið þátt í símtali um rúmar 16 milljónir króna sem var lagt hald á í Leifsstöð.
Lögreglumaðurinn sem ritaði upp hljóðritanirnar sagði rannsóknina hafa staðið yfir í marga mánuði og hann þekkti því raddir sakborninganna. Þá var tekið mið af því hvað var rætt um og það sett í samhengi við önnur sönnunargögn.
Hann lýsti því að hann hefði legið yfir rannsókninni dag og nótt í langan tíma.
Hann sagði að ef lögreglan væri ekki viss um hver talaði stæði „ónefndur aðili“ í skýrslunum eða viðurnefni.
Þá sagði hann að sérstakur tölvubúnaður hefði ekki raddgreint upptökurnar.
Önnur hljóðritun sem á að hafa átt sér stað er Jón Ingi var í Dóminíska lýðveldinu í janúar hefur harðlega verið gagnrýnd af honum og Björgvini Jónssyni, verjanda hans.
Telja þeir hana vera ólöglega, þar sem Jón Ingi var staddur erlendis.
Lögreglumaðurinn sem stýrði rannsókninni sagði að allar aðgerðir lögreglu færu fram á Íslandi og væru unnar í samvinnu við ákærusvið Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Hann vildi ekki greina nánar frá starfsháttum lögreglu. Hann játaði þó að Jón Ingi hefði farið til útlanda nokkrum sinnum á meðan rannsókn lögreglu stóð yfir.
Samkvæmt úrskurði dómara lá fyrir heimild til þess að koma fyrir hljóð- og upptökubúnaði, taka ljósmyndir og hreyfimyndir á heimili Jóns Inga, og öðrum stöðum sem hann fundaði með samverkamönnum sínum
Er Björgvin þrýsti enn frekar á lögreglumanninn viðurkenndi hann að Jón Ingi hefði verið erlendis á meðan eitthvað af hlerunum átti sér stað. Hann vildi ekki greina frá því hvernig hlerunarbúnaður hefði aflað þeirra gagna. Þá ítrekaði hann að hann treysti ákvörðunum yfirmanna sinna á ákærusviðinu.
Í lok dags lagði Björgvin fram bókun þess efnis að sækjandi skyldi draga þessi gögn til baka úr málsgögnunum. Karl Ingi Vilbergsson saksóknari sagði að það yrði ekki gert. Bókunin var engu að síður skjalfest.
„Fannst þetta svolítið skrýtið,” sagði lögreglumaðurinn sem stýrði rannsókninni um poka af 12 milljónum króna sem var skilinn eftir á verkstæði Péturs Þórs Elíassonar, hægri handar Jóns Inga, í Kópavogi.
Lögreglumaðurinn lýsti því að eftirlit hefði verið haft með verkstæðinu á rannsóknartímabilinu.
Er maður, sem hefur játað að hafa tekið við peningunum, tók pokann af verkstæðinu og keyrði með hann á brott ákvað lögregla að stöðva hann, þar sem hann ók án ökuréttar. Peningarnir fundust þá í aftursæti bílsins.
Þá sagði annar maður í yfirheyrslu lögreglu að hann hefði farið með pokann að beiðni Jóns Inga á verkstæðið. Hann neitaði hins vegar sök fyrir dómi.
Varðandi aðdraganda þess að rannsóknin sprakk út, er hópurinn flutti inn kókaín falið í pottum um borð í skemmtiferðaskipi, sagði lögreglumaðurinn sem stýrði rannsókninni að annar mannanna sem voru um borð í skipinu hefði farið tvisvar sumarið 2023 í slíka ferð.
Lögreglan hefði fengið veður af því að mennirnir tveir væru farnir út í apríl á þessu ári. Ekki mörg skip hefðu verið að sigla á þessum árstíma svo að lögreglan hefði getað staðsett þá um borð í skipinu AIDAsol. Gott eftirlit hefði verið sett upp í tengslum við þetta.
Förin var tekin fyrir í dómsal í gær. Jón Ingi játaði að hafa átt hlut í innflutningnum en sagðist ekki hafa stýrt honum.
Maðurinn sem á að hafa flutt efni áður með skemmtiferðaskipum sagðist fyrir dómi ekki hafa vitað að félagi hans, sem var með honum um borð, hefði verið að flytja inn fíkniefni. Hann hefði fyrst byrjað að gruna það er þeir komu um borð og félaginn varð taugaóstyrkur.
Í skýrslu lögreglu stóð: „Lögreglu var á þeim tímapunkti ljóst að hópurinn væri að nota skemmtiferðaskip til að koma fíkniefnum til landsins, auk annarra leiða.”
Áslaug Lára Lárusdóttir, verjandi mannsins, mótmælti harðlega staðhæfingum lögreglu um að hann hefði áður flutt inn efni.
Hún spurði lögreglumanninn ítrekað á hverju þessi fullyrðing væri byggð og af hverju sönnunargögnin fylgdu ekki gögnum málsins.
Lögreglumaðurinn sagði það vera byggt á samtali við föður mannsins, en hann er einnig ákærður í málinu.
Áslaug spurði þá af hverju samtalið væri ekki í málsgögnum. Lögreglumaðurinn svaraði að hann myndi ekki alveg hvers eðlis það samtal var eða hvernig það fór fram.
Málið er nefnt eftir spjalli sem átta sakborningar voru hluti af og var tengt við Sólheimajökul. Samkvæmt gögnum lögreglu var rætt um það í spjallinu að hópurinn ætlaði í árshátíðarferð á jökulinn. Í þessu tiltekna spjalli var ekki rætt um fíkniefnasölu.
Einn þeirra sem voru í þessu spjalli, en er ekki ákærður fyrir skipulagða brotastarfsemi né stórfellt fíkniefnabrot, er hinn maðurinn sem var um borð í skemmtiferðaskipinu.
Hann hefur játað brot sitt og sagðist fyrir dómi í gær ekki hafa verið allsgáður er ferðin átti sér stað. Að eigin sögn skuldaði hann Jóni Inga 10 milljónir króna í fíkniefnaskuld.
Lögreglumaðurinn sem stýrði rannsókn málsins var spurður hvort maðurinn hefði fengið einhver vilyrði fyrir að játa.
Lögreglumaðurinn svaraði að dómari gæti einn ákveðið hvort veita ætti afslátt af refsingu fyrir játningu. Lögreglan hefði ekkert með það að gera.
„Lögreglan er ekki að lofa einum né neinum eitt,” sagði hann.
Í gögnum málsins kom fram að Jón Ingi hefði greitt tveimur konum, sem eru sakborningar í málinu, 300 þúsund krónur í laun á mánuði.
Í einu símtali er haft eftir Jóni Inga: „Málið er að maður er miklu meira en bara yfirmaður” og „maður er bara með einhvern svona hóp, og maður er bara svo mikið fyrir hlutverkið, ég tek því bara eins og það er.”
Þá segir í gögnum málsins að hann hafi verið með sérstakan skuldalista.
Svo virðist sem Jón Ingi hafi þó ekki viljað að fólk í neyslu starfaði fyrir sig vegna ótta um að það fólk gerði mistök eða stæli fíkniefnum.
Verjandi manns sem lýsti því fyrir dómi að hann hefði verið í „bullandi neyslu“ vakti athygli á þessu í vitnaskýrslum dagsins.
Einn lögreglumannanna ritaði skýrslu um hlutverk sakborninganna í starfseminni.
Þar sagði um Jón Inga: „stýrði hópnum, greiðir laun, stýrir innflutningi fíkniefna, stýrir sölumönnum. Ræður starfsfólk í vinnu og segir fólki upp ef það er ekki að standa sig“.
Þá er farið yfir hlutverk hinna sakborninganna, sem voru í flestum tilfellum að afhenda fíkniefni, pakka þeim, geyma þau, hafa yfirsjón yfir lager, rukka fólk o.fl.
Einn maður er nefndur „peningamaðurinn”, þar sem hann sá um að sækja fjármuni og sendast með þá.
Annar sá um að skipta gjaldeyri fyrir hópinn. Hann sótti fjármuni og átti að skipta í erlenda mynt og fá þóknun fyrir. Hann hefur játað sök.
Í lok dags var fjallað um handtöku sakbornings sem tók við kókaíninu sem kom með skemmtiferðaskipinu.
Hann lýsti henni sem harkalegri. Hann hefði meiðst á hné og brjóstkassa. Þá hefði sími hans verið skoðaður án heimildar.
Einn lögreglumaður sagðist hafa heyrt manninn segja er hann var spurður hvað væri í pottunum: „Þið vitið það jafnvel og ég“ og „þetta er búið”.
Lögreglumaður sem tók farsíma mannsins sagðist hafa spurt sakborninginn um leyninúmer símans. Hann hefði muldrað eitthvað. Lögreglumaðurinn hefði þá beint símanum að manninum og spurt hann hvort þetta væri síminn hans. Við það hefði síminn opnast með andlitsgreiningu.
Lögreglumaðurinn sagðist hafa tekið símann inn í bíl og vistað skilaboð mannsins á Signal. Ljóst væri að þau myndu glatast ef hann gerði það ekki.
Lögreglumaðurinn viðurkenndi að ekki hefði legið fyrir heimild til að opna símann eða rannsaka hann á þessum tímapunkti en að gögn hans hefðu ekki verið rannsökuð fyrr en sú heimild lá fyrir.
Í skýrslu lögreglu stóð: „Það var mat lögreglu að leit þoldi ekki bið sökum þessa.”
Lögreglumaðurinn sagði að vitað væri að hópurinn notaði mjög stuttan „eyðingartíma” á Signal, þ.e.a.s. skilaboð eyddust sjálfkrafa eftir nokkrar klukkustundir.
Málflutningur sækjanda og verjanda í Sólheimajökulsmálinu hefst á mánudag og lýkur að öllum líkindum á þriðjudag.