Landsréttur hefur snúið við dómi héraðsdóms og sýknað Steinþór Einarsson fyrir manndráp á Ólafsfirði í október 2022.
Áður hafði hann verið dæmdur í átta ára fangelsi en dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í janúar.
Ákæruvaldið krafðist þess að átta ára fangelsisdómur í málinu verði þyngdur, en í dómi héraðsdóms var Steinþór fundinn sekur um að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana fyrir tveimur árum með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hníf.
Auk dómsins í héraði var Steinþór dæmdur til að greiða tveimur ólögráða börnum Tómasar sex milljónir króna í miskabætur hvoru um sig og skaðabætur upp á 6,6 milljónir annars vegar og 4,4 hins vegar.
Kvöldið afdrifaríka kom til átaka á milli Tómasar og Steinþórs er Tómas krafðist þess að eiginkona sín, sem var æskuvinkona Steinþórs, snéri aftur á heimili þeirra aðfaranótt 3. október 2022 á Ólafsfirði. Hjónin höfðu átt í stormasömu sambandi.
Steinþór neitaði að hafa stungið Tómas vísvitandi með hníf tvisvar. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti í byrjun mánaðar sagði Steinþór að hlutirnir hefðu gerst mjög hratt og það hefði komið honum mjög á óvart að Tómas hefði látið lífið.