„Algjört hörmungarástand“

Jóhann Ármann segir frá ástandinu í Paiporta.
Jóhann Ármann segir frá ástandinu í Paiporta. Samsett mynd/Aðsend/AFP

Jóhann Ármann Karlsson, eigandi snakkverksmiðju í Paiporta, segir „algjört hörmungarástand“ í bænum, sem hefur orðið einna verst úti í Valenciahéraði eftir stórflóð sem reið þar yfir á þriðjudaginn.

Enn er fjölda fólks saknað og segir Jóhann að björgunarstarf ekki síst erfitt sökum þess að húsin séu full af aur og drullu. Fólk er hvarvetna að moka út úr húsum sínum og marga hafa misst allt sem það á að sögn Jóhanns. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá fólk moka frá húsum sínum.

„Aurinn og vatnið hefur náð í um tveggja metra hæð. Allar íbúðir sem eru á jarðhæð eru uppfullar. Fjöldi manns hefur ekki lifað þetta af því þetta kom svo hratt. Ég er búinn að tala við starfsmenn sem búa hérna í Paiporta. Þeir sáu vatnið koma og nágranni eins starfsmanns, ungur strákur, var með aldraðri móður sinni heima við. Fyrst reyndi hann að koma henni upp á borð. En svo jókst vatnið stöðugt og hún drukknaði í örmunum á honum. Þannig er fjöldi tilfella og dramatíkin er alveg skelfileg,“ segir Jóhann.

Samkvæmt síðustu tölum hafa 158 látist í flóðunum og enn er margra saknað.

Jóhann tók þessa mynd af bílum í stafla. Hann fullyrðir …
Jóhann tók þessa mynd af bílum í stafla. Hann fullyrðir að enginn bíll sé í lagi á svæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Jóhann býr í nærliggjandi bæ en var staddur í Paiporta þegar hann ræddi við blaðamann. Þangað hafði hann þurft að koma sér fótgangandi í stígvélum og að sögn hans var hann í um klukkustund að koma sér að verksmiðjunni. Í bænum búa um 27 þúsund manns.

Í bakgrunni má heyra sírenuvæl og viðbragðsaðilar eru á hverju strái að sögn hans.

„Bílarnir flutu og þegar göturnar þrengdust þá hlóðust þeir upp. Því var ekkert hægt að synda í þessu, krafturinn var allt of mikill. Þeir sem hafa ekki komist upp á aðra hæð hafa einfaldlega lent í vandræðum,“ segir hann. 

Ekki hægt að kafa við leit 

Í gegnum bæinn liggur árfarvegur sem vanalega er þurr en hann fylltist þegar yfir flæddi. Norðan við farveginn er eins og ekkert hafi í skorist en sunnan við hann er svo til allt undir aur og drullu.

„Það er svo mikil drulla hérna. Þessi bleyta hefur farið ofan í kjallara hérna og það er ekkert um það að ræða að kafa ofan i kjallarana. Þeir eru fullir af drullu. Þeir sem hafa drukknað ofan í þessum kjöllurum munu ekki finnast fyrr en þessari drullu verður mokað út. Það er enn talsvert af fólki sem ekki hefur fundist,“ segir Jóhann.

Flutningabíll sem feyktist inn í verksmiðju Jóhanns.
Flutningabíll sem feyktist inn í verksmiðju Jóhanns. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir það ekki á ástandið bætandi að ekkert rafmagn er á svæðinu. Því hefur fólk ekki getað hlaðið símtæki sín og haft samskipti við annað fólk. Við gang sinn í átt að verksmiðjunni mætti hann fólki sem óð drulluna upp að hné með föggur sínar í fanginu.

„Fólkið inni í þorpinu er fólk sem á ekki mikið en hefur misst allt sem það á. En það er þó gaman að sjá að fólk er að koma hvarvetna frá með skóflur og kústa til að aðstoða fólk við að moka,“ segir Jóhann.

Langt í að lífið komist í samt horf 

Hann segir ljóst að það muni taka langan tíma fyrir lífið að komast í samt horf. „Það er ekki einn einasti bíll hérna megin í þorpinu sem er í lagi. Og fólk þarf að fara að vinna en veit ekkert hvenær það verður.“

Sjálfur er Jóhann búinn að fara í verksmiðjuna þar sem allt er á rúi og stúi. Meðal annars má sjá flutningabíl sem farið hefur í gegnum dyr og er hálfur inni í verksmiðjunni. Fyrir utan það er tjón innanstokks augljóslega gífurlegt. 

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá vörubíl sem kominn er hálfur inn í verksmiðjuna. 

Mikið tjón er inni í verksmiðjuhúsnæði Jóhanns.
Mikið tjón er inni í verksmiðjuhúsnæði Jóhanns. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert