Staðfest hefur verið að uppruni E. coli-smits sem kom upp á leikskólanum Mánagarði í lok október var úr blönduðu nautgripa- og kindahakki frá Kjarnafæði. Börnin fengu hakk og spagettí i matinn þann 17. október og veiktust í kjölfarið.
Er það niðurstaða rannsóknar að meðhöndlun og eldun hakksins hafi ekki verið með fullnægjandi hætti á leikskólanum, en hægt er að koma í veg fyrir smit með hreinlæti og réttri meðhöndlum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu embættis landlæknis.
Greining á sýnum hjá Matís staðfesti að sama sermisgerð, það er E. coli O145 fannst bæði í saursýnum frá börnum af leikskólanum og í sýni af hakki sem notað var í matseld á leikskólanum. Sýni sem tekin voru úr öðrum matvælum reyndust öll neikvæð með tilliti til E. coli, að hakkinu undanskildu.
Hakkið fór ekki í almenna sölu, heldur var eingöngu selt til stærri eldhúsa, svo sem veitingastaða, mötuneyta og leikskóla.
Tugir barna á leikskólanum veiktust eftir að hafa borðað hakkið, þar af nokkur alvarlega, og þurftu fimm að leggjast inn á gjörgæslu.
Nokkur börn sem venjulega borða ekki kjöt veiktust einnig en í tilkynningunni segir að ekki sé hægt að fullyrða um smitleið hjá þeim. Hugsanlega hafa þau smitast af öðrum börnum sem sóttu leikskólann eftir að þau veiktust en áður en leikskólanum var lokað.
Matvælastofnun hafði samband við forsvarsmenn fyrirtækisins þegar grunur beindist að hakkinu og hafði fyrirtækið samdægurs samband við alla aðila sem fengu hakk úr sömu framleiðslulotu og notað var í leikskólanum Mánagarði.
Við innköllun kom í ljós að kaupendur höfðu þegar notað það í starfsemi sinni, en engar upplýsingar hafa komið fram um smit eða veikindi hjá neytendum hakksins hjá öðrum eldhúsum.
Samkvæmt löggjöf um kjötframleiðslu er ekki gerð krafa til framleiðenda að allt kjöt sé laust við E. coli áður en það fer á markað. Hins vegar eiga kjötframleiðendur að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að minnka líkur á mengun á skrokkum og kjötvörum í ferlinu. En eins og áður sagði er hægt að koma í veg fyrir smit með réttri meðhöndlun og hreinlæti.
Greint var frá því í gær að mátráður leikskólans hefði látið af störfum að eigin ósk. Leikskólinn hefur verið lokaður frá því sýkingin kom upp, en vonir eru bundnar við að hægt verði að opna aftur á þriðjudag í næstu viku.