Fækkun áramótabrenna hitamál

Áramótabrennur eru í huga margs Íslendingsins heilagur þáttur hverra áramóta …
Áramótabrennur eru í huga margs Íslendingsins heilagur þáttur hverra áramóta – jafnvel svo að nýtt ár komi varla brennulaust. Til stendur að fækka brennum á vegum Reykjavíkurborgar, þó ekki alveg strax. Myndin er hins vegar af áramótabrennu í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

„Við samþykktum í rauninni að fækka úr tíu niður í sjö í gær, það var spurning um eina sem þurfti að flytja þannig að við fækkuðum í sex en bættum svo við einni,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir við mbl.is, borgarfulltrúi, oddviti Pírata hjá Reykjavíkurborg og „loftslagskempa“, þetta síðasta hennar eigin skilgreining sem fram kom hér í viðtalinu.

Málið snýst um 324. fund umhverfis- og skipulagsráðs sem haldinn var í gær. Þrettánda mál á dagskrá fundarins var tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu borgarlandsins, um fækkun áramótabrenna frá og með nú í ár.

Var fækkunin samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokks.

Kostnaður við förgun 20 milljónir

Í bókun sinni tóku fyrsttöldu flokkarnir fjórir það fram að ekki stæði til að leggja brennur af heldur aðeins fækka þeim.

„Ástæður fyrir þeirri tillögu að fækka brennum úr 10 í 6 grundvallast fyrst og fremst í beiðnum frá slökkviliði, lögreglu og heilbrigðiseftirliti þar sem talin er standa ógn af þeim brennum sem hafa verið við lýði vegna mismunandi ástæðna eins og nálægðar við byggð, umferðaröryggis og neikvæðra staðbundinna umhverfisáhrifa.“

Þá væri kostnaður við brennur orðinn umtalsverður, einungis kostnaður við förgun eftir þær væri um 20 milljónir auk þess sem efniviður og mönnun kostuðu sitt. Eðlilegt væri að horfa í hverja krónu, ekki síst þegar athugasemdir viðbragðsaðila lægju fyrir.

„Vegna staðla sem fyrir liggja þarf nú að kaupa efni í brennuna frekar en að nýta eitthvað sem fellur til við framkvæmdir. Það hefur sömuleiðis verið erfitt að manna þessar brennur og umbúnaðurinn er mikill. Hér er verið að fara ákveðna millileið, að mæta gagnrýnum sjónarmiðum og þeirri sterku hefð sem er fyrir brennum um áramót,“ segir að lokum í bókun fulltrúa flokkanna fjögurra.

Álfar og þjóðsagnavættir hafi vigt

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun og gátu þess þar að áramóta- og þrettándabrennur, ásamt tilheyrandi mannsöfnuði, blysförum, harmónikku- og gítarspili, þjóðlegum fjöldasöng, og álfum og öðrum þjóðsagnavættum á áramótum og á þrettándanum, hefðu hér á landi verið órjúfanlegur þáttur hátíðarhaldanna á þessum árstíma, allt frá upphafi þéttbýlismyndunar.

„Í fjölda hverfa Reykjavíkur á slíkt samkomuhald sér meira en aldar gamla hefð. Það hefur verið kærkomið tilefni til að hitta nágranna og ættingja á þessum tímamótum, ungum sem öldnum mikill gleðigjafi, kynslóð fram af kynslóð, og merkur þáttur í menningarsögu samfélagsins. Þær áramótabrennur sem hér er lagt til að verði aflagðar eiga sér áratuga hefð. Þær hafa gegnt mikilvægu menningarhlutverki, eru fjölskylduvænir viðburðir sem stuðla að samheldni íbúa og jákvæðum hverfisanda,“ segir enn fremur.

Ákvörðun um að leggja af brennur verði ekki réttlætt með manneklu hjá Reykjavíkurborg þar sem aldrei hafi fleiri starfað en einmitt nú. Auk þess væri það ákvörðun borgaryfirvalda að safna í bálkestina, en til margra áratuga hafi það verið samvinnuverkefni íþróttafélaga og íbúanna sjálfra, þótt opinberir aðilar sæju um eftirlit. Vel mætti taka aftur upp þá verkaskiptingu.

Áramótabrenna í Gufunesi hlaðin. Eitt er að hlaða brennur en …
Áramótabrenna í Gufunesi hlaðin. Eitt er að hlaða brennur en annað er kostnaður við förgun brunarústanna eftir þær. Er hann um 20 milljónir. mbl.is/Golli

„Sú fráleita ákvörðun borgaryfirvalda að afleggja umræddar brennur, án nokkurs samráðs við íbúa eða íbúasamtök, er aðför að grónum hefðum í skemmtanahaldi borgarinnar um jól og áramót. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjumst alfarið gegn slíkum áformum,“ segja fulltrúarnir að lokum.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókaði að flokkurinn fagnaði því að til stæði að fækka áramótabrennum.

„Söfnun í brennur hefur oft gengið brösuglega. Hér er um að ræða stórt umhverfismál og mikill kostnaður er í kringum hverja brennu fyrir sig svo ekki sé minnst á þann sóðaskap og rask sem þessum brennum óhjákvæmilega fylgir. Það hefur borið við ef hvassviðri er á gamlárskvöld að allskonar rusl úr brennu haugum [sic] borgarinnar hefur fokið út um víðan völl og hverfin í kring,“ segir í bókuninni.

Engin breyting nú um áramótin

Í dag ritar Dóra Björt borgarfulltrúi hins vegar á Facebook-síðu sína að ákvörðuninni hafi verið frestað. „Það verða áfram 10 brennur í Reykjavík um áramótin 2024,“ er yfirskrift pistils hennar. Eftir mikil viðbrögð íbúa og íbúaráða hyggist Píratar leggja til við umhverfis- og skipulagsráð á næsta fundi að afturkalla tillöguna og halda áfram með tíu brennur nú um komandi áramót.

Aftur í spjall við Dóru Björt: „Á þessum fundi voru sjónarmið uppi um tímasetninguna, það væri kannski stuttur tími til stefnu og svo í gær og í dag fara íbúar að tjá sína skoðun á þessu, fólk er með efasemdir og finnst þetta fullbratt, vill fá betri umræðu,“ segir borgarfulltrúinn.

Bálið brennur, bjarma á kinnar slær. Áramótabrenna á Húsavík árið …
Bálið brennur, bjarma á kinnar slær. Áramótabrenna á Húsavík árið 2010. mbl.is/Hafþór

Henni hafi því fundist rétt að taka skref til baka og halda tíu brennum í ár. „Það er nú 1. nóvember í dag og jólin og áramótin að nálgast. Fólk er kannski búið að setja sig í stellingar og hugsa sér hvernig það sér fyrir sér hátíðirnar. Þetta er tilfinningamál og snertir kannski það kærasta í okkur sem er oft hátíðarhöld og fjölskyldustundir.

Myndirðu segja að þetta væri hitamál eins og þú skrifar á Facebook?

„Já, ég varð auðvitað að nota tækifærið, þetta orðalag er svo gott grín. En jú, þetta snertir okkar fjölskyldur, líf og upplifanir sem er eitthvað sem hreyfir við fólki,“ svarar Dóra Björt. Kveðst hún alltaf hafa haft það eina af sínum meginreglum í stjórnmálunum að vera auðmjúk og næm á sjónarmið íbúa.

Áhyggjur af nálægð við byggð

„Við pólitíkusar og kjörnir fulltrúar erum ekki hafin yfir það, og við erum heldur ekki alvitur og við höfum ekki alltaf yfirsýn yfir allt alltaf,“ játar borgarfulltrúinn hispurslaust, „og ég tek gjarnan skref til baka ef of langt er gengið. En þetta tengist þessum viðbragðsaðilum, þessar þrjár staðsetningar sem lagt var til að hætt yrði við tengjast meðal annars því að slökkviliðið hefur haft áhyggjur af nálægð við byggð. Varðandi fjórðu brennuna, sem er sú við Rauðavatn, voru áhyggjur af því að fólk væri að leggja við veginn og hlaupa svo yfir hann,“ útskýrir Dóra Björt.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og loftslagskempa, kýs að fara hinn …
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og loftslagskempa, kýs að fara hinn mjúka milliveg og hlýða á íbúa borgarinnar. Fækkun brenna hefur verið frestað í bili. Ljósmynd/Aðsend

Hún kjósi heldur að ræða málin til lengri tíma og hafa viðbragðsaðila og íbúa með í ráðum. „Gera þetta bara fallega og vinna þetta lýðræðislega sem er í sjálfu sér það sem við höfum lagt áherslu á að gera yfirleitt.“

„Þótt ég sé mikil loftslagskempa...“

Í stóra samhenginu þyki borgarfulltrúanum mikilvægt að horfa á stórar áhrifaríkar aðgerðir sem hafi meiri áhrif til langs tíma litið. „Ekki kannski að afleggja brennur, banna flugelda eða banna drykkjarrör úr plasti. Það er ekki að ráðast að rót vandans, það sem skiptir mestu máli eru samgöngur, breyttar ferðavenjur, úrgangsmál og endurheimt votlendis, neyslan og þáttur fyrirtækja,“ segir hún.

„Þótt ég sé mikil loftslagskempa eru þessi minni mál svona táknræn umhverfisgjörð en ef þú ert ekki af vilja gerð til að taka ákvörðun um þessa stóru losunarþætti sem við stöndum frammi fyrir er það bara eins og að skvetta vatni á gæs. Við þurfum að taka upplýstar ákvarðanir um það sem við gerum, ekki bara það sem er auðveldast að gera eða einfaldast,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi að lokum.

Kópavogsbúar kveðja árið 2017 með brennu og líklega söng.
Kópavogsbúar kveðja árið 2017 með brennu og líklega söng. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert