Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gleymdi að skoða tölvupóstinn fyrir kappræður RÚV í kvöld og hafði því ekki undirbúið spurningu fyrir annan formann.
Sigmundur dó þó ekki ráðalaus og beindi spurningu sinni að forsætisráðherra Bjarna Benediktssyni.
Spurði Sigmundur hvort það heillaði Bjarna að mynda nýja ríkisstjórn með Viðreisn og Samfylkingunni þar sem líklegt væri að Sjálfstæðismenn þyrftu að gefa eitthvað eftir hvað varðar Evrópusambandsumsókn og hærri skatta.
„Nei, það gerir það nú ekki þegar þú nefnir þetta svona, að það myndi fela í sér skattahækkanir og við myndum leggja upp með það að ríkisstjórnin myndi berjast fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Ég get ekki tekið þátt í slíkri stjórn, ég myndi ekki geta gert það,“ svaraði ráðherrann.
Kveðst Bjarni til að mynda engin rök sjá fyrir því að Ísland ætti að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Þar sé fátækt til að mynda meiri og atvinnuleysi hærra.
„Ég hef enga sannfæringu um að það þurfi allar skattahækkanir Samfylkingarinnar og ég sé það að Evrópusambandið, kaupmáttur þar hefur vaxið um 4% síðan 2013, hér hefur hann vaxið um 51%.“
Tók forsætisráðherrann fram að þar með væri ekki sagt að hann og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gætu ekki unnið saman enda teldi hann þörf á borgaralegri ríkisstjórn vinstri- og hægriflokka.
Þess að auki hefðu þau verið ágætir félagar og unnið vel saman á sínum tíma.
Hló Þorgerður dátt og sagði hann alla vega ekki byrja vel með þeim orðum. Best væri þó að treysta þjóðinni til að velja sína forystu.