Kappakstursbraut í Reykjavík: Raunhæfur möguleiki?

Hér keyrir Ferrari-ökumaðurinn Charles Leclerc um götur Baku í Aserbaísjan …
Hér keyrir Ferrari-ökumaðurinn Charles Leclerc um götur Baku í Aserbaísjan í september. Spurning hvort Formúlu-bílar gætu einhvern tímann orðið sjón sem íbúar Reykjavíkur gætu séð á götum borgarinnar. AFP/Natalia Kolesnikova

Væri hægt að bjóða ökumönnum Formúlunnar upp á kappakstursbraut sem myndi þræða í gegnum Reykjavíkurborg líkt og brautir sem þræða í gegnum miðborgir Mónakó, Bakú eða Singapúr?

Þetta er spurning sem Hugrún Harpa Björnsdóttir, meistaranemi í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, spyr í meistararitgerð sinni eða hvort að það sé raunhæfur möguleiki að koma á laggirnar götukappakstursbraut sem uppfylli kröfur Alþjóðlega akstursíþróttasambandsins (FIA) í Reykjavík.

Hugrún kynnti ritgerðina á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar fyrir árið 2024 fyrr í dag og ræddi hugmyndina við blaðamann mbl.is eftir fundinn.

Tvinnar saman áhugamál og ritgerðarefni

„Ég er í meistaranámi í skipulagsfræði og hef alltaf haft áhuga á Formúlu 1 kappakstri, þannig mig langaði að tvinna þetta einhvern veginn saman,“ segir Hugrún spurð að kveikju hugmyndarinnar.

Hún segir efni ritgerðarinnar ekki einungis snúa að því að kanna möguleika götukappakstursbrautar í Reykjavík, heldur sé einnig verið að sýna fram á margvíslega notkun innviða, þar á meðal til skemmtiviðburða, og að hægt sé að nýta þá í öðrum tilgangi en þeim var upphaflega ætlað.

Hugrún leggur til þrjá möguleika á götukappakstursbraut í Reykjavík í …
Hugrún leggur til þrjá möguleika á götukappakstursbraut í Reykjavík í ritgerðinni. mbl.is/Geir

Leggur til þrjá kosti

Í ritgerðinni leggur Hugrún til þrjá mögulega kosti fyrir kappakstursbraut á götum borgarinnar. Fyrsta hugmyndin er braut í gegnum Sæbraut-Snorrabraut-Miklubraut-Kringlumýrarbraut. Næsta hugmyndin er Vesturlandsvegur-Suðurlandsvegur og sú síðasta Sæbraut-Katrínartún-Laugavegur-Kringlumýrarbraut.

Spurð um efnilegasta kostinn bendir hún á möguleika brautar um Vesturlandsveg-Suðurlandsveg:

„Leiðbeinandi minn er allavega mjög hrifinn af Vesturlandsvegi-Suðurlandsvegi. Það er í raun og veru nægilegt pláss og þar er tækifæri á að búa til flóttaleið. Þó svo að það sé rosalegur umferðarþungi þarna þá er hægt að sneiða fram hjá götulokunum,“ segir hún.

Formúlukeppnum fylgir gífurlegt umstang. Loka þarf götum og tryggja gæði malbiksins á brautunum. Þar kveða ítarlegar reglur FIA á um hvað má og hvað má ekki.

Fleira sem þarf að huga að

Það á þó einungis við um kappaksturinn sjálfan, en hver formúlukeppni um sig er stórviðburður. Tryggja þarf gistirými, veitingar og vín og vanalegast er boðið upp á einhvers konar skemmtiatriði. 

Að því leytinu til hentar braut um Vesturlandsveg-Suðurlandsveg illa segir Hugrún og að iðulega séu brautirnar sniðnar í kringum þekkt kennileiti í borginni.

Sjálf kveðst hún vera hrifnust af Sæbraut-Snorrabraut-Miklubraut-Kringlumýrarbraut, en viðurkennir að götulokanir gætu reynst um of kæmi til þess.

Sjálf kveðst Hugrún hrifnust af braut sem þræðir Sæbraut-Snorrabraut-Miklubraut-Kringlumýrarbraut.
Sjálf kveðst Hugrún hrifnust af braut sem þræðir Sæbraut-Snorrabraut-Miklubraut-Kringlumýrarbraut.

Allavega möguleiki

Spurð að lokum hvort það sé raunhæfur kostur að koma á laggirnar götukappakstursbraut í Reykjavík hlær hún og segir:

„Ég lít á þetta sem fyrsta skref af nokkrum. Það þarf að fara í fleiri rannsóknir, til dæmis kostnaðar- og nytjagreiningu, en miðað við þetta skref er þetta möguleiki, en eins og ég segi þá þarf margt fleira að ganga upp.“

Efni ritgerðarinnar snýr ekki einungis að því að kanna möguleika …
Efni ritgerðarinnar snýr ekki einungis að því að kanna möguleika kappakstursbrautar, heldur að hægt sé að nýta innviði í öðrum tilgangi en þeim var upphaflega ætlað. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka