Kennarar í MR samþykkja verkfallsaðgerðir

Menntaskólinn í Reykjavík við Lækjargötu.
Menntaskólinn í Reykjavík við Lækjargötu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í kjölfar þess að hafa þurft að endurtaka atkvæðagreiðslu um verkfall í Menntaskólanum í Reykjavík hafa kennarar skólans samþykkt boðun um verkfall 18. nóvember.

Í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands segir að verkfallið hafi verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Verkföll í níu skólum hófust á þriðjudaginn en lítið hefur þokast í kjaradeilunni. Skólarnir sem um ræðir eru: Leikskóli Seltjarnarness, Drafnarsteini í Reykjavík og Holti í Reykjanesbæ, Áslandsskóli í Hafnarfirði, Laugalækjarskóli í Reykjavík, Lundarskóli á Akureyri, Fjölbrautaskóli Suðurlands og Tónlistarskóli Ísafjarðar

Kjörsókn 95%

Þannig er búið að boða til verkfalls í skólanum frá 18. nóvember til 20. desember að því gefnu að samningar verði ekki komnir í höfn.

Endurtaka þurfti atkvæðagreiðsluna vegna þess að ekki tókst að framkvæma boðun verkfallsins með réttum hætti, segir enn fremur í tilkynningu.

Atkvæðagreiðslan stóð frá 30. október og 1. nóvember og kusu 85% þátttakenda með boðuninni, 9% kusu gegn henni og auðir seðlar námu 6%.

Alls var kjörsóknin 95%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert