Mánagarður opnar á ný: Fella gjöld niður

Leikskólinn Mánagarður er hjá Stúdentagörðunum við Eggertsgötu.
Leikskólinn Mánagarður er hjá Stúdentagörðunum við Eggertsgötu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Leikskólinn Mánagarður, þar sem E.coli-smit kom upp í lok október, opnar dyr sínar á ný á þriðjudaginn.

Samningur hefur verið gerður um aðsendan mat frá Skólamat og ákvörðun tekin um að fella niður öll gjöld fyrir nóvembermánuð.

Þetta kemur fram í tölvupósti frá Soffíu Emelíu Bragadóttur, leikskólastjóra Mánagarðs, til foreldra.

Smitin voru rakin til blandaðs nautgripa- og kindahakks frá Kjarnafæði. Börnin fengu hakk og spagettí í matinn þann 17. október og veiktust í kjölfarið.

Hlýjar kveðjur til veikra barna

Sérstakur stýrihópur sóttvarnalæknis fundaði um stöðu mála og var niðurstaðan sú að frekari smithætta væri ekki talin til staðar lengur. Ráðist hafi verið í sótthreinsun, endurskoðun verkferla og aðrar breytingar sem geri það að verkum að hægt sé að opna á ný.

„Síðustu dagar hafa verið erfiðir og því er ánægjuefni að við getum opnað á ný. Sem fyrr er hugur okkar hjá þeim sem enn glíma við veikindi og við sendum okkar hlýjustu kveðjur um skjótan bata,“ segir í póstinum.

Er biðlað til foreldra barnanna um að sækja föt barna sinna og þrífa vel áður en komið er með þau aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert