Ný könnun: Fylgi Viðreisnar eykst og eykst

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Flokkar þeirra mælast stærstu flokkar landsins samkvæmt nýrri könnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný könnun Prósents fyrir Morgunblaðið og mbl.is sýnir að Viðreisn sækir í sig veðrið. Samfylkingin heldur áfram að dala og fylgi VG er botnfrosið.

Þetta er kynnt í nýjasta þætti Spursmála sem fór í loftið á mbl.is kl. 14:00 í dag.

Ekki marktækur munur á Samfylkingu og Viðreisn

Könnunin var gerð dagana 25.-31. október og var úrtakið 2.400 manns og 1.195 svör bárust.

Sem fyrr er Samfylkingin með mesta fylgið. Ríflega 22%. Viðreisn er hins vegar komin yfir 18% múrinn og er ekki marktækur munur á flokkunum tveimur.

Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru á svipuðum slóðum og bítast um þriðja og fjórða sætið.

Þá er Flokkur fólksins búinn að taka sér stöðu í kringum 11%.

Aðrir flokkar mælast með mun minna fylgi og eru annað hvort við það að detta út af þingi eða langt frá því.

Þannig mælist Framsóknarflokkurinn enn rétt undir 6% en Píratar mælast nú undir 5%. Þá eru Sósíalistar með 4% og Vinstrihreyfingin grænt framboð nær ekki vopnum sínum frekar en í fyrri vikum og mælist með 2,6%.

Önnur framboð ná ekki tveimur prósentum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert