„Okkur þykir miður að við höfum dregist inn í þetta mál. Miðað við yfirlýsingu MAST og vinnu stýrihópsins sem fjallaði um málið þá er ljóst að það var pottur brotinn í meðhöndlun hakksins á leikskólanum.“
Þetta segir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis, við mbl.is. Staðfest hefur verið að uppruni E. coli-smits sem kom á leiksólanum Mánagarði í lok október var úr blönduðu nautgripa- og kindahakki frá Kjarnafæði.
Fram kom í tilkynningu frá MAST fyrr í dag að niðurstaða rannsóknar Matís er sú að meðhöndlun og eldun á hakksins hafi ekki verið með fullnægjandi hætti á leikskólanum, en hægt er að koma í veg fyrir smit með hreinlæti og réttri meðhöndlun.
Ágúst segir fyrirtækið hafi átt í nánum samskiptum við MAST allt frá því að E. coli smit kom upp á leikskólanum.
„Við höfum unnið náið með MAST og að sjálfsögðu greinum við alla okkar ferla í kringum þessa lotu ef einhver frávik verða. Við erum með reglubundnar og miklar örverumælingar á öllu því sem við gerum og það var ekkert sem benti til þess að varan hafi verið óörugg neytendum þegar hún fór frá okkur. Annars hefði hún ekki farið frá okkur,“ segir Ágúst.
Hann segir það mjög miður að fjöldi barna hafi smitast og veikst en með réttri meðhöndlun á matvælunum hefði verið hægt að koma í veg fyrir það.
„Hugur okkar er hjá þessum börnum en það er erfitt að sjá hvað við hefðum átt að gera öðruvísi. Þessi vara var frá okkur en við teljum ljóst að ef hún hefði verið meðhöndluð með þeim hætti sem á að gera þá hafi ekki orðið nein veikindi,“ segir Ágúst.
Ágúst segir að viðskiptavinurinn hafi pantað vöruna 9. september og hafi fengið hana daginn eftir. Hún hafi því verið hjá honum í um fimm fimm vikur áður hakkið var þýtt og notað. Hann segir að fyrirtækið hafi enga stjórn á vörunni eftir að hún fari frá fyrirtækinu.
„Okkar verkferlar varðandi svona mál eru í sífelldri þróun til fastari utanumhalds. Við erum alltaf að endurskoða okkar verkferla til þess að komast nær fullkomnun. Að sjálfsögðu er ýmislegt sem við getum lært af þessu,“ segir hann.
Þar nefnir hann í því sambandi að vera skýrari í tilmælum til viðskiptavina meðal annars með merkingu á vörum þar sem tekið er fram með skýrari hætti hvernig eigi að meðhöndla vöruna fyrir neyslu.
„Það er hlutur sem við getum gert betur til að minnka líkurnar á því að varan fari til neyslu án þess að það sé búið að meðhöndla hana með þeim hætti sem á að gera fyrir neyslu,“ segir Ágúst.