Rannsókn lögreglunnar í máli 16 ára pilts sem er grunaður um að hafa stungið Bryndísi Klöru Birgisdóttur til bana og sært tvo önnur ungmenni á Menningarnótt er mjög langt komin.
Þetta segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, við mbl.is og reiknar með að málið verði sent til ákærusviðsins fyrr en seinna. Gæsluvarðhald yfir piltinum rennur út 15. nóvember.
Pilturinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst en ekki má halda mönnum lengur í tólf vikur í gæsluvarðhaldi ef ekki er gefin út ákæra. Eru þau tímamörk 17. nóvember.
Niðurstöður úr krufningu liggja fyrir en óvíst er hvort lögreglan greini frá þeim fyrr en hugsanlega ef ákæra verður gefin út í málinu.