RARIK ætlar að greiða bætur vegna ónýtra raftækja í kjölfar truflana sem urðu í kerfi Landsnets 2. október. Einnig verða greiddar bætur fyrir tæki sem biluðu en hægt er að gera við.
RARIK hefur nú tekið yfir öll samskipti og umsýslu vegna tjónatilkynninga í kjölfar truflananna víðtæku sem urðu fyrir rúmum mánuði síðan, í samvinnu við tryggingarfélag sitt, TM.
„Við hörmum að einhverjum viðskiptavinum sem tilkynntu tjón hafi borist tölvupóstur frá Sjóvá (tryggingarfélagi Landsnets) þar sem fram kom að álitamál væri hvort tjón af völdum rafmagnstruflana væri bótaskylt. Orðalag póstsins var villandi og ekki til þess fallið að vekja traust hjá viðskiptavinum okkar,“ segir í tilkynningu frá RARIK.
„Mögulega gætu einhverjir viðskiptavinir þurft að miðla upplýsingum um tjón í tvígang af þessum sökum, á því biðjumst við velvirðingar en forgangsverkefni okkar er að greiða úr tjónamálunum fyrir viðskiptavini.“