Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karlmann fyrir tilraun til manndráps og dæmt hann í sex ára fangelsi.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur manninum, Erni Steinólfssyni, 10. apríl. Hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. janúar 2024, á akbrautinni við Hofsvallagötu í Reykjavík, stungið mann með hníf í vinstri öxl og hægri síðu.
Fram kemur í dómnum, sem féll 17. október en var birtur í gær, að aðfaranótt 20. janúar 2024 klukkan 3.23 hafi tilkynning borist til neyðarlínu og Fjarskiptamiðstöðvar lögreglu um að einstaklingur hefði verið stunginn með hníf á Hofsvallagötu.
Lögreglan fór á vettvang og handtók Örn á gatnamótum Bræðraborgarstígs og Túngötu. Var ástandi hans lýst sem mjög annarlegu og að hann hafi verið reikull í spori á miðri götu.
Fram kemur í dómnum að Örn eigi nokkurn sakaferil að baki m.a. um ofbeldisbrot.
„Við ákvörðun refsingar er litið til atvika en ákærði réðst að tilefnislausu á brotaþola á förnum vegi. Fór betur en á horfðist þar sem brotaþoli og samferðakona hans komu sér undan.
Þrátt fyrir að ákærði hafi verið hreinskilinn í frásögn sinni um vaxandi andlega vanlíðan sína og aðra persónulega hagi hefur hann ekki sýnt merki iðrunar að neinu marki. Kann það að skýrast að nokkru af því sem fram kemur í matsgerð, að hann trúi í reynd ekki að hann hafi framið brot sem þetta, en einnig getur það átt sér skýringar í persónugerð hans,“ segir í dómi héraðsdóms sem sakfelldi Örn og sagði hann ekki eiga neinar málsbætur.
Honum var enn fremur gert að greiða rúmar tvær milljónir króna í miskabætur.