Það verði ekki hræðilegra

Bjarni Benediktsson er hagur á grasker og beitti oddinum fast …
Bjarni Benediktsson er hagur á grasker og beitti oddinum fast á meðan hann ræddi stjórnmálin, lífið og einn bjór í garðinum. Skjáskot/Instagram

„Já, ég ætla að gera grasker, og ég ætla að gera það eins hræðilegt og ég get,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í myndskeiði á Instagram sem sýnir hann við graskersskurð úti í garði eins og vinsælt er þessa vikuna í anda hinnar fornu keltnesku hrekkjavökuhátíðar sem eitt sinn hét Samhein en ber hvort tveggja annað nafn og allt annað hlutverk í vestrænu nútímasamfélagi.

Ráðherra fer sér að engu óðslega, ræðir líf sitt, svo sem gróðurhús er kostað hafi hann mörg mistök áður en hann dró lærdóm. Hann bítur á jaxlinn og beitir oddinum fast, eins og Davíð frá Fagraskógi lét Bólu-Hjálmar gera í Askinum, mögnuðu kvæði um sauðaþjófnaðarmál skáldsins á Bólu. Hver veit nema Bjarni bölvi líka í hljóði yfir graskeri sínu eins og níddur bóndinn yfir aski sínum.

Einn bjór og spjall

„Það er góð hvíld að koma hérna út,“ segir Bjarni, „og svo er maður stundum hérna úti bara kannski til að fá sér einn bjór og spjalla, maður þarf ekki endilega að vera að rækta neitt. Það er bara lýðræðislegt að skiptast á skoðunum,“ segir hann og lítur eitt andartak upp frá skurðverki sínu þótt ef til vill risti hann ekki þar gnæfandi véberg og voldugan fjallaörn eins og Hjálmar frá Bólu í askinn í ljóði Davíðs.

Bjarni segir Sjálfstæðisflokkinn hafa komist lengst allra flokka við að móta stefnuna fram á við og þar sé ekki amast við að fólk skari fram úr.

Við gleðjumst með þeim sem ná góðum árangri og við vitum að samfélagið allt getur notið góðs af því,“ segir ráðherra og hreysið er hvergi nærri kalt og snautt eins og bærinn á Bólu þar sem sauðaþjófurinn meinti sat við útskurð sinn á 19. öld, fullur heiftar.

Dreift til fjöldans

Bjarni snýr sér að andstæðingum sínum í pólitíkinni: „En vinstri menn, þeir eru stöðugt að reyna að tryggja jafna útkomu. Það er hvergi hægt að sjá neinn standa upp úr án þess að hann sé skattlagður og fólki lofað að það sé tekið af honum og því sé dreift til fjöldans,“ segir hann. Loks fær hyskið sem býr á Bólu/björg eins og annað fólk, orti Davíð.

„Lægri skattar geta aukið tekjurnar,“ segir Bjarni, þar með þurfi engar nýjar skattahækkanir. Að lokum snýr hann graskerinu – sínum aski – við og segir að það geti einfaldlega ekki orðið hræðilegra. Á kerinu blasir útskurður Bjarna við: „VINSTRI STJÓRN“.

Og niðurlag Davíðs í Askinum: Skáldið átti skínandi drauma/og skar þá í tóman ask.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert