„Þetta eru engin vinnubrögð“

Íbúar í Mývatnssveit fengu ekki svör um bætur á íbúafundi.
Íbúar í Mývatnssveit fengu ekki svör um bætur á íbúafundi. mbl.is/Birkir Fanndal

„Það er kominn almennur pirringur í fólk yfir þessum viðbrögðum,“ segir Selma Dröfn Ásmundsdóttir, sem rekur gistiheimilið Stöng í Mývatnssveit. Kurr er kominn í marga í Mývatnssveit vegna viðbragða – eða skorts á þeim – frá Rarik og Landsneti vegna tjóns sem fólk varð fyrir þegar mikil truflun varð á raforkukerfi landsins í síðasta mánuði. Eins og komið hefur fram varð umtalsvert tjón hjá bæði fólki og fyrirtækjum.

Fyrirtækin hafa vísað bótakröfum til Sjóvár en fátt hefur verið um svör. Selma segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við fyrirtækin þrjú og hefur ráðið sér lögfræðing til að sinna sínum málum. Eftir hvatningu frá Selmu á íbúasíðu á Facebook hafa fleiri þar í sveit ákveðið að fylgja í kjölfarið.

Selma sagði sögu sína í Morgunblaðinu í síðustu viku, en þar kom fram að hún og hennar fólk mætu tjón sitt á minnst tíu milljónir króna. Hjá þeim eyðilagðist gólfhitakerfi, þvottavélar, loftljós, frystiklefi og brunakerfi svo fátt eitt sé nefnt. Þau bundu vonir við að svör um bótagreiðslur fengjust á íbúafundi í síðustu viku en því var ekki til að dreifa að hennar sögn.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert