Vilja gera meira en vandinn er peningalegs eðlis

Jón segir blæðingar á slitlagi vera algengara vandamál hér á …
Jón segir blæðingar á slitlagi vera algengara vandamál hér á landi en í þeim löndum sem Vegagerðin horfir til, einkum Ástralíu og Nýja-Sjálands. mbl.is/Geir

Hér á landi tekst aðeins rétt svo að halda vegakerfinu við þar sem aðeins er farið í lágmarksviðhald og sáralítið farið í fyrirbyggjandi aðgerðir. 

Það er peningalegs eðlis.“ segir Jón Helgi Helgason, hjá stoðdeild Vegagerðarinnar og bætir við að auðvitað „dauðlangi“ Vegagerðinni að geta farið í frekari viðhaldsverkefni.

Hann segir jafnframt að athygli veki að ábendingar um vegablæðingar að vetri komi aldrei á vinnutíma.

Jón hélt erindi undir yfirskriftinni Vegablæðingar - hvað er til ráða? á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar fyrir árið 2024 fyrr í dag. Hann ræddi við mbl.is eftir fundinn og fór yfir vegablæðingar og viðhald vega.

Allt kostar þetta peninga

Hvað bikblæðingar sökum hlýinda varðar segir Jón helstu orsakir vera umferð þungra bíla sem þrýsta niður steinefnum og biki upp á yfirborðið.

Hitastig vegarins spilar þar einnig inn í og bendir Jón á að á sumrin sé sól á lofti langt fram eftir nóttu sem geti fyrir vikið haldið veginum við allt að 25 gráður yfir nóttina og fyrir vikið þurfi ekki mikið til að ná veginum upp í þann hita sem þarf til að honum byrji að blæða.

Er þetta einkum bundið við klæðningar vegarins en þó að það komi fyrir, þá er sjaldgæft að það blæði úr malbiki að sögn Jóns.

Nefndi hann að til þess að fyrirbyggja blæðingu vega þyrfti, meðal annars, að malbika eða fræsa upp vegi með mörgum klæðingarlögum og leggja út upp á nýtt eða þá að háþrýstiþvo hjólför sem hafi vísi að blæðingum.

„Við myndum gjarnan viljað malbika meira, fræsa upp vegi og þrífa upp bikið úr hjólförum, eins og hægt er, en þetta kostar allt pening.“

Nýja-Sjáland og Ástralía notast í miklum mæli við síðastnefndu aðferðina til að fyrirbyggja blæðingar og segir Jón að Vegagerðin stefni að því að tileinka sér hana.

Hvað bikblæðingar sökum hlýinda varðar segir Jón helstu orsakir vera …
Hvað bikblæðingar sökum hlýinda varðar segir Jón helstu orsakir vera umferð þungra bíla sem þrýsta niður steinefnum og biki upp á yfirborðið. Samsett mynd

Læra af öðrum þjóðum

„Við höfum fylgst með þessu í mörg ár og rannsakað og höfum leitað til annarra þjóða til að sjá hvað þær eru að lenda í og hvernig þær bregðast við því,“ segir Jón.

Hann nefndi sérstaklega Nýja-Sjáland og Ástralíu í fyrirlestrinum enda um 90% slitlaga klæðing samanborið við Evrópu þar sem um 90% slitlaga eru malbik.

Blæðingar sökum hlýinda eru þannig vel þekkt vandamál í Nýja-Sjálandi og Ástralíu og hafa þær þjóðir komið á laggirnar fjölda fyrirbyggjandi aðferða til að bregðast við vandamálinu, eins og ofangreint dæmi um háþrýstiþvott hjólfara.

Ísland sker sig þó úr hópnum, enda algengara vandamál hér á landi að sögn Jóns.

„Við stöndum ágætlega að vígi miðað við hinar þjóðirnar en þetta er algengara hjá okkur heldur en hinum, þannig við höfum kannski meiri reynslubanka til að vita hvernig þetta gerist og svoleiðis.“

Aldrei á vinnutíma þegar tilkynning berst

Hvað vetrarblæðingar varðar segir Jón þær vera ófyrirsjáanlegar:

„Við þurfum að bregðast við hratt til að koma í veg fyrir að það verði mikil hætta á því.“

Orsakir vetrarblæðinga eru ekki þekktar með vissu.

Vitað er að endurteknar sveiflur milli frosts og þýðu, álag vegna umferðar og innilokað vatn í veginum spili meðal annars inn í.

„Þetta gerist gjarnan á kvöldin eða um helgar. Einhverra hluta vegna er samspilið oft þannig, ég held að ég hafi aldrei fengið tilkynningu á vinnutíma þegar vetrarblæðing hefst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert