Skátastarfið var upphafið að ævilangri vináttu gönguhópsins Fet fyrir fet sem stofnaður var 1988 en vinirnir kynntust löngu fyrr, í barnæsku. Í 35 ár hefur hópurinn gengið saman einn sunnudag í mánuði, en auk þess hafa verið farnar lengri ferðir á sumrin, bæði hér heima og erlendis. Blaðamaður mætti heim til hjónanna Pálínu Sigurbergsdóttur og Stefáns Kjartanssonar til að heyra meira um þennan einstaka fótfráa vinahóp og þar voru einnig mætt Margrét Elísabet Jónsdóttir, Arnlaugur Guðmundsson og Halldór S. Magnússon til að segja sögur.
„Við byrjuðum öll mjög ung í skátunum, í skátaheimlinu sem þá var braggi á Snorrabraut. Við áttum flest heima í Austurbænum eða Þingholtunum. Þannig að við kynnumst á aldrinum níu til þrettán ára,“ segir Pálína.
„Í Fet fyrir fet eru nokkrir sem voru ekki í skátunum en giftust inn í hópinn og urðu þá bara að bíta á jaxlinn og byrja að haga sér eins og skátar,“ segir Margrét og brosir.
„Í skátunum fá allir eitthvað hlutverk og við tókum þetta upp þegar við stofnuðum gönguklúbbinn í desember 1988. Við ákváðum strax að það yrði farið í gönguferð fyrsta sunnudag í hverjum mánuði klukkan hálf ellefu, og við hittumst alltaf uppi á Ártúnshöfða. Annað sem var ákveðið var að það yrði að vera flokksforingi og að hann myndi síðan tilnefna þann næsta. Þannig höfum við gert þetta í öll þessi 35 ár,“ segir Halldór og bætir við að flokksforingar halda sínum titil í eitt ár áður en þeir rétta öðrum kyndilinn.
Ávallt voru skipaðir tveir flokksforingjar, stundum hjón og stundum einstaklingar. Eina reglan var að alltaf skyldi hlýða flokksforingjum í einu og öllu.
„Við berum mikla virðingu fyrir flokksforingjanum, hver sem hann er. Við hrópum honum til heiðurs,“ segir Halldór og áður en blaðamaður veit hvaðan á sig stendur veðrið, hrópa þau öll í kór: „Heill foringja vorum og fósturjörð!“
Hópurinn hefur séð mikið af landinu á þessum 35 árum, en þau létu sér ekki nægja mánaðarlegar gönguferðir.
„Við förum alltaf í eina góða ferð á sumrin og höfum farið fjórum sinnum til útlanda,“ segir Margrét.
„Til Noregs, Austurríkis, Færeyja og til Borgundarhólms í Danmörku,“ skýtur Arnlaugur inn í.
„Hópurinn heitir Fet fyrir fet, venjulega kallaður Fetið,“ útskýrir Margrét en í honum eru þrettán meðlimir en fjórir eru látnir.
„Við ákváðum strax að hópurinn mætti ekki vera stærri en svo að hann rúmaðist inn á einu heimili eða í einum litlum fjallaskála,“ segir Margrét.
„Við erum búin að hittast fjögur hundruð sinnum og Margrét hefur skrifað í bók um hverja einustu göngu,“ segir Pálína og segir ferðirnar í dag orðnar mun styttri; oft um Laugardal, Elliðadal, Klambratún eða um hverfi borgarinnar. Gjarnan er þá endað á kaffihúsi eða í kaffi í heimahúsi.
„Við höfum farið í alvöru fjallaferðir,“ segir Margrét.
„Við höfum labbað Fimmvörðuháls, í Landamannalaugum, Þórsmörk, Hvítárnesi, Borgarfirði eystri, Firði, á Strönum, í Skaftártungum, yfir Kjöl, Lónsöræfi og Snæfellsnes. Allt Ísland bara,“ segir Pálína, enda er listinn ekki tæmandi. Þau segjast nú í seinni tíð, eftir að aldurinn fór að færast yfir, hafa gist í hótelum, frekar en í skálum, og farið í styttri gönguferðir.
„Við erum ekki eins brött og við vorum,“ segir Margrét.
Oft lenti hópurinn í ævintýrum í óbyggðum og rifjar Margrét upp eina sögu.
„Eitt sinn þegar við vorum að ganga í Skaftártungum vorum við óheppin með veðrið. Við vorum að vaða þverlæki og þverár sem voru orðin beljandi stórfljót. Ég held við höfum verið klukkutíma á nærbuxunum í þokunni og við fórum ekki úr vaðskónum; það tók því ekki því það kom alltaf ný og ný spræna. Þá heyrðist kallað úr þokunni: „Og fyrir þetta borgum við!“,“ segir Margrét og þau skellihlæja að minningunni.
Halldór segist muna eftir einni góðri sögu úr einni eftirminnilegustu ferð sem farin var.
„Þá vorum við að ganga Tungnahryggjsjökul. Við göngum úr Barkárdal og stoppum í skála uppi á jöklinum. Sá skáli var nú ekki ætluður nema fyrir um tíu menn. Við vorum að minnsta kosti tuttugu! Það var ansi þröngt,“ segir hann.
„En þegar við vorum á leiðinni þangað lentum við í niðaþoku,“ segir Halldór og segist ekki hafa séð næsta mann á undan sér þó hann hafi verið nálægt.
„Við vorum nú með góða menn sem voru með áttavita og græjur. Flokksforinginn sá um að við gengum beint; hann gekk fremstur með áttavitann. Svo erum við farin að nálgast skálann en vissum ekki nákvæmlega hvar hann var. Það var ákveðið að nokkrir karlar færu af stað að leita og að lokum fann einn hann. Mönnum var létt þegar heyrðist hrópað úr þokunni: „SKÁLI!” Svo gengu hinir á röddina,“ segir Halldór.
„Eftir þetta var aldrei sagt skál, heldur skáli,“ segir Margrét og hlær.
Hvað hafa þessar ferðir gefið ykkur í gegnum árin?
„Félagsskap!“ segir Halldór.
„Þetta hefur gefið mér svo mikið, þessi vinátta í öll þessi ár. Þetta er fastur punktur í tilverunni. Oft þegar fólk fer að eldast leysast svona hópar upp en það hefur ekki gerst hjá okkur,“ segir Pálína.
„Þetta hefur verið djúp vinátta og tryggð,“ segir Margrét.
„Svo hefur þetta gefið okkur útivist og hreyfingu,“ segir Arnlaugur.
Nýlega var gengin fjögur hundruðasta gangan og fór hópurinn um Vogahverfið.
„Margrét á heima í Nökkvavogi og hún bauð okkur heim á eftir í hádegismat,“ segir Pálína.
Hópurinn hyggst halda ótrauður áfram, enda vita þau fátt skemmtilegra en að ganga saman og spjalla.
„Við höldum bara ótrauð áfram!“ segir Pálína.
Ítarlegt viðtal er við meðlimi hópsins í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.