Erwin Brynjarsson starfsmaður Securitas náði á fimmtudaginn þeim merka áfanga að hafa hjólað 100.000 kílómetra á einu og sama hjólinu.
Hjólið keypti hann notað árið 1995 í Kaliforníuríki þar sem hann bjó um stund og setti hann sér það markmið um aldamótin að ná 50.000 kílómetrum. Sú tala tvöfaldaðist svo síðar meir og var þeim áfanga svo náð á fimmtudag.
„Þetta er gríðarlega stór áfangi fyrir mig,“ segir Erwin í samtali við Morgunblaðið og undirstrikar hann að áfanginn sé einn sá stærsti í lífi hans en kílómetrana hefur hann haldið utan um með hraðamæli í gegnum tíðina.
Þá tekur hann það fram að hann hafi frá byrjun notað hjólið til að koma sér til og frá vinnu, burtséð frá því hvernig íslenska færðin kunni að vera. Geri aðrir betur.
Þetta gerir um 3.333 km á ári að meðaltali, séu bæði upphafsárið og árið í ár tekin með, en til samanburðar er Hringvegurinn 1.321 km að lengd. Á hverju ári hefur Erwin því hjólað sem samsvarar rúmlega tveimur og hálfum hringjum á Hringveginum, eða í heild 75,7 hringi.