Sigtryggur Sigtryggsson
Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals hefur samþykkt að beina því til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að grípa til viðeigandi ráðstafana svo að almennir lóða- og framkvæmdaskilmálar vegna uppbyggingar í borgarhlutanum verði virtir.
Einnig óskar íbúaráðið eftir að efnt verði til átaks vegna daprar umgengni á og við byggingarlóðir í Úlfarsárdal. Í mörgum tilfellum séu lóðirnar og nágrenni þeirra notuð sem geymslusvæði svo mánuðum skiptir, með tilheyrandi sóðaskap og slysahættu.
Beiðnin var tekin fyrir á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs, sem vísaði henni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða, deildar afnota og eftirlits.
Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals lagði af þessu tilefni fram bókun þar sem fram kemur að íbúaráðið hafi margoft á liðnum misserum fjallað um slæmt ástand á byggingarlóðum í dalnum. Fluttar hafi verið fréttir af ákalli íbúaráðsins sem ekki hafi náð eyrum borgaryfirvalda að því er virðist. Þannig bókaði ráðið í maí 2020 að „víða um hverfið er óboðlegur frágangur og umgengni á og umhverfis lóðir ýmist í eigu einkaaðila eða borgarinnar“.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.